Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 22:22:20 (3099)

2000-12-08 22:22:20# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[22:22]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 kemur nú til lokaafgreiðslu. Ég vísa til nál. 2. minni hluta fjárln. við 2. og 3. umr. en vil auk þess nefna nokkur atriði sem mig langar til að leggja áherslu á.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggjum áherslu á að ríkisfjármálunum sé beitt til að auka jöfnuð í samfélaginu. Í þeim tilgangi höfum við lagt fram breytingar við 2. umr. en því miður voru þær allar felldar. Nú við 3. umr. gerum við aftur tilraun til úrbóta og vonandi verður þeim betur tekið en þeim fyrri. En því miður af fenginni reynslu megum við ekki vera of vongóð um það.

Í tillögum okkar sem við flytjum hér breyttar leggjum við enn og aftur áherslu á velferðarmál.

Við leggjum áherslu á umhverfismál og við leggjum áherslu á mál til að styrkja byggð í landinu.

Við leggjum auk þess áherslu á menntun, bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi.

Við leggjum áherslu á auknar rannsóknir á mörgum sviðum.

Við leggjum áherslu á grunnrannsóknir til lands og sjávar því á mörgum sviðum stöndum við mjög illa þegar kemur að því að vinna þá vinnu sem okkur ber, bæði hvað varðar mat á umhverfisáhrifum, vegagerð, hvaða framkvæmdir sem er, nýjar atvinnugreinar sem eru að koma til okkar eins og fiskeldi o.fl. Okkur vantar grunnrannsóknir á mjög mörgum sviðum og við leggjum áherslu á að efla þær rannsóknir.

Hvað varðar háskóla landsins hefur ekki verið lögð fram tillaga á hækkun á framlögum til þeirra á milli 2. og 3. umr. þrátt fyrir að ljóst sé að töluvert magn vantar inn í reksturinn, bæði samkvæmt kennsluáætlun og áhuga skólanna á því að sinna eftirspurn eftir námi. Háskólinn á Akureyri hefur t.d. mikinn áhuga á því að uppfylla markmið byggðaáætlunar um háskólanám á Vestfjörðum og Austfjörðum. Til þess að svo megi verða þarf að taka sérstaklega tillit til þess á fjárlögum. En því miður er það ekki á fjárlögum fyrir árið 2001.

Aftur á móti hefur verið komið til móts við þarfir símenntunar og fjarvinnsluverkefna. Símenntunar- og fræðslumiðstöðvarnar, sem eru átta á landinu í dag, fá núna hver um sig 7 millj. kr., auk þess er óskiptur pottur upp á 93,3 millj. kr. Þetta er í heildina töluverð hækkun og það er mikil munur fyrir þessar stöðvar að hafa ákveðinn rekstrargrunn svo þær viti á hverju þær mega byggja frá því sem var á þessu ári þegar var einn óskiptur pottur og þeir sem ráku stöðvarnar vissu ekkert hvað þeir mundu fá úr þeim eina potti. Ég tel þetta til bóta og vonandi að framlagið eins og það er sett upp í dag muni duga til að styrkja þannig rekstur stöðvanna að þær geti haldið áfram að byggja upp eins og þær hafa áhuga á.

Það eru fleiri háskólar en Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri fyrir utan Háskólann í Reykjavík, sem mér liggur við að segja sjái um sig, en það eru búnaðarháskólarnir á Hólum og á Hvanneyri. Það vantar aukið fjármagn inn í þá. Vonandi verður bætt úr því. Ekki er nóg að tala bara um að efla byggð. Með því að styrkja búnaðarháskólana styrkjum við einnig búsetu um allt land. Aukin menntun fyrir bændastéttina mun styrkja alla byggð í landinu.

En framhaldsskólarnir, herra forseti, eru í mjög erfiðri stöðu, bæði vegna þess að það módel sem hefur verið sett upp til þess að reikna þeim fjármagn er ekki réttlátt, sérstaklega gagnvart fámennari skólum. Það hefur orðið til þess að í raun og veru hefur dregið mátt úr þeim samfara fækkun nemenda. Þetta hefur verið eins og hálfgerð vítisvél sem fækkun nemenda hefur haft áhrif á þetta módel. Auk þess stendur nú yfir mjög erfið deila milli framhaldsskólakennara og ríkisins og hún verður ekki leyst nema aukið fjármagn komi inn í skólana. Við sjáum ekki að brugðist sé við þessu í fjárlagafrv. við 3. umr. Því höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lagt fram brtt. til framhaldsskólanna, óskipt, þar sem við leggjum til að það komi aukalega 250 millj. kr. til skólanna til að koma til móts við þær þarfir sem við vitum að eru til staðar. Ekki verður hægt að leysa þetta verkfall nema semja um launahækkanir til kennaranna og það á að gera ráð fyrir því.

Herra forseti. Opinberar stofnanir eiga í harðri samkeppni við frjálsa vinnumarkaðinn, bæði um starfsfólk og oft um starfsaðstöðu en laun og kjör hafa mest áhrif. Þessi staða er svo notuð til þess í raun að rægja opinberar stofnanir, þ.e. að þær séu ekki samkeppnisfærar og vanmegnugar til að sinna tilskildum verkefnum eða þeim verkefnum sem þær eiga að sinna. Þetta kemur glöggt fram við rekstur heilbrigðisstofnananna. Þar hefur verið sýnt mjög mikið aðhald í rekstri og ýmsum hagræðingaraðgerðum beitt svo sem með því að loka deildum yfir sumartímann og oft miklu lengur, verið er að loka um helgar og takmarka vaktir um helgar o.s.frv. Hægt væri að lesa upp langan lista en þetta ásamt ýmsu öðru hefur haft þau áhrif að biðlistar hafa lengst eftir aðgerðum og meðferð. Þar af leiðandi ásamt örri þróun í læknisfræðinni eru sífellt fleiri aðgerðir gerðar á einkastofum úti í bæ. Mjög mikill áhugi er á því að fjölga slíkum aðgerðum og núna er það notað sem rök fyrir því að koma á einkarekstri í heilbrigðisþjónustunni að þjónustan hjá hinu opinbera sé svo ófullnægjandi að það verði að koma upp einkareknum heilbrigðisstofnunum til að bæta þar úr og til að útrýma biðlistunum. Ekki er byrjað á því að líta til stöðu heilbrigðisstofnana í dag. Er hægt að bæta úr þjónustunni með meira fjármagni með því að styðja rekstur þeirra eins og hann er og það starfsfólk sem þar vinnur með því að verða við óskum um að hafa bakvaktir um helgar þegar þess þarf með þannig að ekki þurfi að senda sjúklinga utan af landi hingað á höfuðborgarsvæðið, svo ég nefni sem dæmi bara af því að það eru ekki bakvaktir og ekki hægt að sinna nauðsynlegri þjónustu? Svo er þetta notað til að krefjast þess að komið verði á fót einkareknum sjúkrahúsum og stofum. Þetta er þróun sem er núna í fullum gangi.

[22:30]

Sameining Landspítalans og Borgarspítalans var mjög umdeild og er það enn í huga mínum. En þessi ákvörðun er tekin og búið er að sameina þessar stofnanir. Það er mjög dýrt að sameina heilbrigðisstofnanir, hvort sem um er að ræða stórar stofnanir eins og Landspítalinn og Borgarspítalinn voru eða heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni eins og verið er að gera. Það eitt að sameina stofnanir er dýr aðgerð. Það hefur ekki farið fram hjá okkur að mikið fjármagn vantar inn í hina nýju, stóru stofnun, Landspítala -- háskólasjúkrahús og miðað við fjárlagafrv. er fjárþörfinni ekki fullnægt.

Þetta er dýrast núna í byrjun meðan er verið að koma sameiningunni á og breyta í rekstri en þetta verður áfram þungt í rekstri. En ekki er fyrr búið að sameina þessar stofnanir í eina og það mjög stóra rekstrareiningu á mælikvarða okkar en farið er að liða stofnunina aftur í sundur. Farið er að hafa einkarekstur inni á þessari stofnun. Varla er búið að sameina þegar farið er að einkareka inni í stofnuninni. Nú þegar er ein deild, öldrunardeild, í einkarekstri og til stendur að sameina lyfjaverslanirnar og koma þeim í einkarekstur. Mér er nær að halda að sameiningin hafi kannski verið gerð til þess eins að búta stofnunina niður og koma henni fyrir í mismunandi einingum og í einkarekstri eftir því sem hægt er.

Þetta breytir ekki því eins og ég sagði að enn þá vantar umtalsvert fjármagn inn í reksturinn og þarf örugglega að halda áfram að hagræða og hafa miklar aðhaldsaðgerðir í gangi á næsta ári svo þetta dæmi gangi upp.

Sama má segja um Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Þó það hafi fengið hækkun frá fyrra ári verður reksturinn áfram þungur. Þetta á við þegar við lítum til bakvakta og nú hefur sjúkrafluginu verið bætt inn á vaktir heilbrigðisstarfsmanna og þá sérstaklega lækna og það þarf að sinna því. Mikill áhugi er á fjarkennslu og fjarlækningum og væri örugglega hægt að styrkja þann þátt mun meira ef fjármagn væri til þess. Eins til aukinnar sérfræðiþjónustu bæði við stofnunina og að nýta þá sérfræðinga sem eru við stofnunina til að fara í farþjónustu til annarra landshluta.

Herra forseti. Það að styrkja heilbrigðisstofnanirnar úti á landi, hvort sem það heitir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri eða Heilbrigðisstofnun Austurlands eða aðrar stofnanir er miklu meira en bara að uppfylla ákveðna þjónustuþörf. Þetta er einn af lykilþáttum til að styrkja byggð á landsbyggðinni og ef þessi þáttur er ekki í lagi hefur það mikil áhrif á það að fólk fer frekar í burtu þó aðrir þættir séu í góðu lagi eins og atvinna og skólar og slíkt.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lögðu fram brtt. um að liður 08-206 Sjúkratryggingar og lyf hækki enn um 420 milljónir. Það kemur til vegna þess að þrátt fyrir að það standi til að breyta reglum um þátttöku sjúklinga og reglum um lyfjakostnað teljum við þetta mikla bjartsýni í áætluninni eins og hún er lögð upp í dag, ekki muni nást niðurskurður eins og lagt er til nema þá að því leyti að enn meiri álögur verði lagðar á sjúklinga með þátttöku þeirra því að tíma tekur að vinna þá breytingu sem unnið er að, eins og áður hefur komið fram, og koma henni á. Ég held að við þurfum að gefa þeirri vinnu a.m.k. tvö ár í undirbúningi áður en við getum ætlast til þess að hægt sé að reikna inn lyfjakostnaðinn samkvæmt svokallaðri danskri reglu.

Hér hafa margar ágætistillögur verið fluttar til bóta og auðvitað líka til hækkunar. Framlög til skógræktarverkefna hafa verið aukin og það er mjög ánægjulegt en eftir situr svo Skógrækt ríkisins, stofnun sem er mjög mikilvæg til að sinna öllum þessum nýju skógræktarverkefnum og landshlutabundnum verkefnum. Það er nokkuð sem við þurfum að skoða. Við þurfum að styrkja þá stofnun svo að þessi góðu áform um skógrækt í landinu verði okkur til sóma en ekki til einhverrar hörmungar inn í framtíðina.