Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 22:51:20 (3102)

2000-12-08 22:51:20# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[22:51]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að beina spurningu til hæstv. fjmrh. Er það rétt sem kom fram í máli hv. formanns fjárln. Jóns Kristjánssonar að Sjálfstfl. hafi staðið í vegi fyrir því að kosningaloforð Framsfl. gagnvart barnafólki hafi náð fram að ganga? Þetta mátti greinilega skilja á ummælum hv. þm. Jóns Kristjánssonar. Hann lýsti því yfir í ræðustól þegar hann var gagnrýndur fyrir það að framsóknarmenn skyldu slá af kosningaloforðum sínum. Hv. þm. sagði: Menn verða að gá að því að það er sitt hvað kosningaloforð og stjórnarsáttmáli.

Af þessu má ráða að Sjálfstfl. standi í vegi fyrir því að kosningaloforð Framsfl. hafi náð fram að ganga því að þau hafa ekki náð fram að ganga. Framsfl. lofaði því í kosningabaráttunni að hann mundi koma verulega til móts við barnafólk og bæta stöðu barnafólks frá því sem hún hefur verið. Staðreyndin er sú að kjör barnafólks hafa verið rýrð stórlega á undangengnum árum þegar litið er til barnabóta. Þær eru núna að verðgildi tveimur milljörðum lægri en þær voru fyrir tíu árum.

Framsfl. lofaði svokölluðum barnakortum, ótekjutengdum barnabótum til barna. Fyrir fjórum árum námu ótekjutengdar barnabætur að meðaltali 40 þús. kr. fyrir hvert barn. Núna stendur til að fyrir hvert barn verði greiddar 33 þús. kr. en ekki fram að 16 ára aldri eins og verið hefur heldur að sjö ára aldri. Þegar talsmaður Framsfl. var inntur eftir því hverju það sætti að flokkurinn sviki kosningaloforð sín þá sagði hann: Menn verða að gá að því að við erum í stjórnarsamstarfi. Við settum fram kosningastefnu okkar og kosningaloforð. Síðan gengum við til samstarfs og gerðum stjórnarsáttmála. Þar er komin skýringin.

Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. upplýsi okkur um hið sanna í þessu efni. Er það rétt sem má skilja af máli hv. þm. Jóns Kristjánssonar, formanns fjárln., að Sjálfstfl. hafi staðið í vegi fyrir því að Framsfl. hafi haft sitt fram í þessu efni? Það er mikilvægt að þetta sé upplýst í umræðunni. Eða er þetta ódýr undansláttur af hálfu framsóknarmanna? Við verðum að fá skýringar á þessu áður en umræðunum lýkur.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um fjárlagafrv. Ég hef áður gert grein fyrir meginsjónarmiðum mínum og hér hefur verið sagt allflest sem segja þarf í tengslum við þetta fjárlagafrv.

Hv. þm. Jón Bjarnason, talsmaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjárln., gerði rækilega grein fyrir efnahagsforsendum frv. og þeim vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð við smíði þess. Hann vakti athygli á því að við stöndum frammi fyrir miklum efnahagserfiðleikum ef ekki verður að gert og benti sérstaklega á stigvaxandi og hraðvaxandi viðskiptahalla. Mönnum þótti hann slæmur fyrir fáeinum missirum þegar hann nam um 6% af landsframleiðslu, nú stefnir í að viðskiptahallinn verði tæpir 70 milljarðar kr. á næsta ári sem eru rúm 9% af landsframleiðslu. Ég held það sé hæstv. forsrh. einn sem þorir að segja það upphátt að allt sé í lukkunnar velstandi, ég held að aðrir fari varlegar í þeim efnum. Væri fróðlegt að heyra álit hæstv. fjmrh. um það efni.

Varðandi vinnubrögðin í tengslum við þetta frv. var tvennt sem vakti athygli mína í málflutningi hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Hann gagnrýndi í fyrsta lagi að við skyldum ganga til umræðu og afgreiðslu að hluta til um útgjöld ríkisins á komandi ári áður en fyrir lægi hverjar tekjurnar yrðu að öllum líkindum. Hann gagnrýndi þetta varðandi vinnubrögðin.

Það var annað sem hann vakti athygli á og gerði reyndar einnig við fjárlagaumræðuna í fyrra, að benda á brotalamir í lögum um fjárreiður ríkisins. Í lögum um fjárreiður ríkisins segir m.a. að einstökum ráðherrum sé heimilt með samþykki fjmrh. að gera verksamninga og samninga um rekstrarverkefni sem heyra undir ráðuneytið til lengri tíma en eins árs við þá ríkisstofnun sem sinnt hefur verkefninu, aðra ríkisstofnun, sveitarfélög eða einkaaðila.

Nú gerist það í fjárlagasmíðinni að í sífellt ríkari mæli er verið að færa fjármuni yfir á safnliði einstakra ráðuneyta. Þessir safnliðir skipta núna milljörðum kr. Í skjóli laga um fjárreiður ríkisins, sem sumir hv. þingmenn Sjálfstfl. voru að lofa og prísa við umræðuna fyrr í kvöld, á meðal annarra hv. þm. Hjálmar Jónsson, þá hef ég gagnrýnt þetta ákvæði. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur einnig varað við oftúlkun þess og vakið máls á því við umræðuna hvað sé í reynd að gerast með þessum kerfisbreytingum, að færa fjármagn í síauknum mæli yfir á safnliði og síðan hafi ráðherrar skjól í lagatexta á borð við þennan. Það er verið að færa lýðræðislegt vald yfir í ráðuneytið, yfir í geðþóttaákvarðanir ráðuneytanna. Þetta er nokkuð sem ég vil taka undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni, talsmanni Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjárln.

Varðandi tekjuforsendur frv. hafa menn furðað sig á þeim vinnubrögðum að koma á síðustu stundu með eina litla átta milljarða rúma fyrir sölu á ríkiseignum. Við höfum fjallað um ráðstöfun fjárins, við höfum greitt atkvæði um einstaka fjárlagaliði án þess að forsendur á borð við þessa lægju fyrir. Þessar forsendur þarf að ræða út frá efnahagslegu sjónarhorni og út frá pólitísku sjónarhorni. Það er engin skýr stefnumörkun varðandi einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar, engin efnahagsleg skýr stefna. Hún er ekki til hvað þetta snertir.

Hæstv. forsrh. sagði við umræðuna í dag að þetta væri heppilegt fyrir okkur með tilliti til gjaldeyrisstöðunnar. Ég spyr: Hvað er átt við með þessu? Erum við að tala um að selja þessar eignir til útlanda? Er það skýringin? Hver er skýringin á því? (Forsrh.: Það gæti líka þýtt það að menn hefðu bréf að kaupa hérlendis.) Að menn hefðu bréf að kaupa hérlendis. Það heitir bréf núna, Landssíminn, símaþjónustan við þjóðina, það heitir bréf sem gengur kaupum og sölum í erlendum verðbréfahöllum.

[23:00]

Við leggjum hins vegar áherslu á það sem býr að baki þessu bréfi. Við erum að leggja áherslu á þær eignir sem verið er að setja hér á markað og færa yfirráð yfir til útlanda í mörgum tilvikum.

Á sínum tíma töluðu Íslendingar um kosti þess að selja símann til Dana, það var talað um það, ágætt að sameina hann danska símanum. Svo aftarlega voru menn á merinni í þekkingu sinni að þeir gerðu sér ekki grein fyrir því að danski síminn var fyrir löngu kominn til Ameríku. Það var fyrirtæki í Chicago sem heitir Ameritech og á símann í Ungverjalandi og víðar um heim sem var búinn að festa kaup á honum.

En þetta er sem sagt til þess að menn geti keypt bréfin sín á Íslandi. Salan fyrir eignir og einkavæðingu eða fjármunirnir fyrir einkavæðingu jukust sem sagt á síðustu klukkustundum við afgreiðslu fjárlaganna um helming, um rúma 8 milljarða, voru rúmir 7 milljarðar fyrir. Þetta eru náttúrlega vinnubrögð sem ganga ekki upp.

Eitt alvarlegasta málið í fjárlagafrv. að mínum dómi lýtur að húsnæðismálum. Það finnst mér vera mjög alvarlegur þáttur, óraunsær og óskammfeilinn. Mig langar til að beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hvort það sé virkilega þannig komið fyrir Sjálfstfl., sem einhvern tíma talaði fyrir því að fólk ætti að geta átt sitt húsnæði, að hann sé búinn að gefa þá stefnu upp á bátinn gagnvart gervöllum tekjulægri hluta samfélagsins? Vegna þess að það kerfi sem við búum við núna býður ekki upp á þennan valkost fyrir tekjulágt fólk, það er staðreynd sem menn geta ekki vikið sér undan. Við búum við húsbréfakerfi þar sem vextir eru núna 5,1%, síðan koma verðbæturnar, það eru önnur 5%, afföllin sem liggja núna í 10%, allt þetta ýtir verðinu upp og eykur á lánsklyfjarnar. Og enginn getur fengið lán að fullu, allir verða a.m.k. að tíunda hluta að leita út á lánsfjármarkað.

Hver eru lánakjörin þar? Fyrir fólk sem ekki á fasteignir til að veðsetja eru víxilvextir, og það er staðreynd að fólk er að taka lán á þeim kjörum, 20%. Menn geta flett upp í Morgunblaðinu á þessum tölum, 20%. (Forsrh.: Hvað voru víxilvextir þegar þú varst að byggja? 100%.) Víxilvextir hafa oft verið miklir en ég staðhæfi að ástandið hefur ekki verið verra en það er núna.

Hvað voru vextir þegar ég var að byggja? spyr hæstv. forsrh. Ég man eftir ummælum tveggja manna sérstaklega í tengslum við umræðu um vaxtamál á þeim tíma. Annar heitir Jóhannes Nordal og var þá seðlabankastjóri. Hinn heitir Pétur H. Blöndal og er nú hv. þm. en var forstjóri Kaupþings á þeim tíma. Báðir þessir menn voru spurðir þeirra spurninga hvað þeim þætti eðlileg raunávöxtun á fjármagni. 2% að hámarki, sögðu þessir tveir menn.

Nú erum við að tala um vexti, raunávöxtun á húsbréfum, sem eru 5,1%, og ef við bætum 10% afföllum við þá erum við farin að teygja okkur undir 6%, 5,7%, sagði hæstv. félmrh. við umræðu í gær. (Forsrh.: Hvað voru nafnvextir þegar þú varst að byggja?) Nafnvextir voru háir, það er alveg rétt og ég ætla ekki að fara að mæra það ástand. (Forsrh.: Þú svarar ekki spurningunni.) Vegna þess að ég vil vera nákvæmur þegar ég er að svara. (Forsrh.: Þeir voru 100%.) Það sem ég man að gerðist og varð þess valdandi að stofnuð var húnæðishreyfing, kennd við Sigtún, var það misgengi sem skapaðist á lánamarkaði þegar Sjálfstfl. og Framsfl., tvíburarnir tóku með stjórnvaldsaðgerð vísitölubindingu launa af, afnámu hana en létu lánsfjármagnið æða upp á við.

Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh. að félagar hans í Sjálfstfl. stóðu að aðgerðum í efnahagsmálum sem voru skelfilegar fyrir húsnæðiskaupendur, það er alveg rétt. Síðan var gripið til ráðstafana, ég man að um haustið 1983 var dælt inn 500 millj. kr. til bjargar og það eru þeir fjármunir sem við erum að auglýsa eftir núna til bjargar því fólki sem ekki getur aflað sér húsnæðis.

20% víxilvextir þýða 200 þús. kr. fyrir hverja milljón til bankans á ári, 400 þúsund fyrir hverjar 2 milljónir. Og það er staðreynd að fólk er að taka lán á þessum vöxtum. Þetta er staðreynd.

Það sem þetta hefur í för með sér, vegna þess, hæstv. forsrh., að á þeim tíma var til nokkuð sem hét félagslegt húsnæðiskerfi líka, verkamannabústaðir, og tekjulægsta fólkið átti athvarf þar inni. Ég get upplýst hæstv. forsrh. um hvað vextirnir voru þar. Þeir voru 1% og voru það alllanga hríð, hækkuðu síðan á tíunda áratugnum upp í 2,4% og síðan var farið yfir 3%. En nú eru menn að teygja sig með þá líka upp í markaðsvexti. Það hangir aðeins á bráðabirgðaákvæði í húsnæðislögunum sem rennur út núna eftir hálfan mánuð að þeir vextir verði ekki hreyfðir. Ég hef auglýst eftir því hvað ríkisstjórnin hyggist fyrir í þeim efnum gagnvart þeim sem njóta lána sem veitt voru til félagslegs húsnæðis, leiguhúsnæðis. Ekki er síður stærri spurningin, hvað gerist með framhaldið og framtíðina?

Í fjárlagafrv. er varið 50 millj. kr. í þennan stuðning. Það vantar ekki að lánsfjármagnið til félagslega leiguhúsnæðis sé aukið, það er aukið, en á kjörum sem eru óviðráðanleg. Það er mergurinn málsins. Þegar farið er að grafast fyrir um það á hvern hátt eigi að veita stuðning kemur í ljós í fjárlagafrv. að tala sem var í 100 milljónum er farin niður í 50 milljónir. Síðan er gerð grein fyrir því að menn hyggist reisa 500 félagslegar íbúðir. Það er stuðningur sem nemur 100 þús. kr. fyrir hverja íbúð. Þetta dæmi gengur ekki upp.

Staðreyndin er þessi að fjöldi fólks sem ekki ræður við markaðsvexti og hefur ekki félagslega valkosti verður að fara út á leigumarkað. Á almennum leigumarkaði er lágmarksleiga fyrir fermetrann 1.000 krónur að því mér er sagt. Það eru 60 þús. kr. fyrir litla tveggja herbergja íbúð og þaðan af er hún meiri. Hún er víða lægri í félagslegu leiguhúsnæði. Þess vegna er brýnt að veita fjármagn þangað inn til að styðja þá aðila sem sinna þeirri þörf og það eru aðilar á borð við Öryrkjabandalagið, Sjálfsbjörg, námsmannaíbúðirnar, félagsleg kerfi á vegum sveitarfélaganna o.s.frv.

Aðeins áður en ég skil við þetta efni þá eru menn að tala um að þessar 50 milljónir fari annaðhvort í stofnstyrki eða í húsaleigubætur. Húsaleigubæturnar eru sem kunnugt er rúmlega 40%, 42%, og greiddar af sveitarfélögunum þannig að þar eru menn að velta byrðum yfir á sveitarfélögin.

Mér finnst mjög óraunsætt ef menn ætla að skilja við fjárlagafrv. með þessum hætti. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum lagt til framlag til þessara mála sérstaklega. Við lögðum fram tillögu um 800 milljónir í þennan lið, hún var felld. En við komum með aðra tillögu sem er ívið lægri núna til þess að freista þess að fá einhverjar úrbætur.

En ég auglýsi eftir stefnu Sjálfstfl. varðandi eignarhúsnæðið. Ég hef alltaf verið á því máli að bjóða eigi upp á valkosti, að fólk eigi að geta valið um það hvort það leigir eða eignast sína íbúð. Margt ungt fólk vill heldur leigja íbúð, það eru margir sem frekar vilja leigja sína íbúð, leigja húsnæði og nota fjármunina til annars. Ég er meira gamaldags, ég hef viljað eiga mitt húsnæði. En ég vil að allir eigi þessa valkosti og þegar ég segi allir þá meina ég allir. En það er ekki lengur boðið upp á slíkt og það er gengið enn lengra í skerðingarátt.

Skerðingarátt, vel á minnst. Menn samþykktu það hér í þingsal að skerða vaxtabæturnar um 400 milljónir frá því sem upphaflega var lagt til. Ég vænti þess að fá síðan þau svör að þetta sé vegna þess að tekjur fólks hafi aukist. Væntanlega verður boðið upp á það. En lánsbyrðarnar hafa aukist miklu meira. Þetta eru staðreyndir sem menn verða að horfast í augu við.

Herra forseti. Ég lofaði að verða ekki langorður og ég ætla að standa við það. Ég ætla aðeins í lokin að nefna að við leggjum áherslu á ýmsa félagslega þætti og við forgangsröðum. Við horfum til aldraðra og öryrkja. Við gerum tillögu um aukið framlag til tekjutryggingar inn í almannatryggingakerfið og við gerum tillögu um fjármagn til að afnema tengingu örorkubóta við tekjur maka. Við viljum efla fornvarnastarf í heilbrigðiskerfinu, við viljum fjármagn til að styrkja umhverfismálin, styrkja Ríkisútvarpið og menningarstarfsemi og við gerum tillögur um hvernig megi afla ríkissjóði aukinna fjármuna.

En það væri ósköp fróðlegt og skemmtilegt undir lokin að heyra af því að ég er búinn að beina ýmsum spurningum til talsmanna Sjálfstfl., hæstv. forsrh., hæstv. fjmrh. og annarra, m.a. spurði ég hvort það væri rétt sem fram hefði komið frá talsmönnum Framsfl. að Sjálfstfl. hefði staðið í vegi fyrir því að kosningaloforð Framsfl. næðu fram að ganga, vegna þess að hv. þm. Jón Kristjánsson sagði að eitt væru kosningaloforð og kosningastefna, annað væri stjórnarsáttmáli. Þegar menn væru búnir að semja við íhaldið þá væri búið að skera niður. Þetta er digur yfirlýsing og fróðleg.

Eina ósk á ég til handa Framsfl. Það er að hann standi heldur betur vaktina en hann gerir gegn frjálshyggjunni í Sjálfstfl. og láti ekki glepjast á þann hátt sem mér fannst því miður mega kenna í málflutningi hv. þm. Jóns Kristjánssonar undir lok 2. umr. Hann varði einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar á sviði heilbrigðismála, á sviði skólamála sem tilraunastarfsemi, það var tilraun, við erum að gera tilraun, segir hann. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að fjármagn til einkavæðingar innan menntakerfisins hækki um 35 millj. kr. til að gera tilraun væntanlega á sviði framhaldsskólanna, hraðbraut fyrir nemendur. Við þekkjum hin tilraunaverkefnin, Sóltún, þar sem Securitas og Aðalverktakar eru að framkvæma tilraun fyrir framsóknarmenn væntanlega líka og þannig er áfram haldið.

Ég hef hins vegar tekið ofan fyrir hæstv. heilbrrh. sem skörulega, skýrt og skorinort kvað upp úr með það á Alþingi fyrir fáeinum dögum að hún ætlaði að standa gegn einkavæðingaráformum Sjálfstfl. í heilbrigðiskerfinu. Ég tek undir þau sjónarmið og hef fagnað þeim sjónarmiðum og ítreka þá afstöðu mína.