Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 23:15:44 (3103)

2000-12-08 23:15:44# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[23:15]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Í fjárlagaumræðunni allri hefur margt afar áhugavert komið fram. Hér hefur það afdráttarlaust verið dregið fram að mikill stefnumunur er á Samfylkingunni og stjórnarflokkunum. Samfylkingin hefur líka vakið athygli á ólíkri afstöðu talsmanna stjórnarflokkanna til efnahagsmálanna.

Formaður fjárln. er t.d. meðvitaður um að viðskiptahallinn er löngu orðinn hættulegur og að alvarlegar blikur eru á lofti. Það er allt annar tónn en hjá forsrh. sem sópar alvarlegum ábendingum efnahagsstofnana til hliðar og telur þær minni háttar. Hann heldur áfram að tala til þjóðarinnar eins og allt sé í fínasta lagi: Ég er við stjórnvölinn, elskurnar mínar, og tryggi að allt verði í lagi. Hlustið ekki á varnaðarorð leiðindaseggjanna. Ég stjórna, trúið mér, treystið mér, ég gef ykkur góðærið.

Þannig hefur boðskapur hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar hljóðað í tvö ár og þannig hefur hann blygðunarlaust slegið á öll varnaðarorð.

Hálfu ári fyrir síðustu kosningar tóku menn að vara við stöðunni og hafa varað við henni síðan. Þess vegna er komið fram við stjórnarandstöðuna hér í þessum sal sem boðbera válegra tíðinda. Drepum sendiboðann, eru viðbrögðin í gegnum alla fjárlagaumræðuna.

Það hefur líka verið athyglisvert að hlusta á viðbrögðin við ýmsu sem haft hefur verið eftir sérfræðingum í efnahagsmálum. Þannig hefur verið reynt að hengja mann úti í bæ fyrir skoðanir á efnahagsmálum, fyrir að tjá sig um þau mál eftir að hann er hættur hjá Seðlabankanum. Herra forseti. Það mætti halda að menn þurfi að hætta í þeim stofnunum sem armur íhaldsins nær til svo þeir geti sett fram aðvaranir. Það er umhugsunarefni ef þessi ríkisstjórn er orðin svo valdasjúk. Ég trúi ekki að svo illa sé komið.

Fyrir rúmri viku átti þingflokkur Samfylkingarinnar fund, eins konar fræðslufund, með nokkrum sérfræðingum á sviði efnahagsmála frá mismunandi stofnunum í okkar efnahagskerfi. Mörg okkar voru miður sín eftir þá yfirferð um efnahagsmálin og hvert stefnir að óbreyttu. Þessir aðilar gera sér grein fyrir því að erfiðara og erfiðara verður að bregðast við vandanum, að það hefði átt gera strax í stað þess að boða rangt fagnaðarerindi aftur og aftur. Herra forseti. Nú þarf í raun að krossa fingur og vona að hér verði ekki kollsteypa. Eftir að hafa hlýtt á slíka umfjöllun er enn furðulegra að taka þátt í þessari umræðu hér um fjárlög og hlusta á ræður hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar.

Jafnframt vekur það ugg að margar raddir í kerfinu eru þagnaðar, að fólk sem starfar hjá hinu opinbera tjáir sig ekki eins og áður um fjárskort og félagsleg vandamál í stofnunum ríkisins. Það gera menn í einkasamtölum. Úti í samfélaginu tekur fólk eftir þessu og rætt hefur verið um að þaggað sé niður í starfsmönnum. Ef svo er þá er lýðræðið alvarlega í hættu og umhugsunarefni fyrir þessa ríkisstjórn.

Þrátt fyrir að ekki sé lengur kallað eftir viðbrögðum og þrátt fyrir að menn gagnrýni það ekki með sama hætti og áður er viðvarandi fjárhagsvandi, t.d. hjá sjúkrahúsunum. Það er talað um það opinskátt hér í þessum sal að sá vandi ýti undir hugmyndir um einkavæðingu á velferðarsviði. Það er ástæða til að óttast. Sú umræða, herra forseti, var tekin í gær og það hvarflar ekki að mér að endurtaka hana hér. Ég hef hugsað mér að innlegg mitt við lok þessarar umræðu verði örstutt.

Samfylkingin hefur lýst því yfir, af því að ég nefndi einkavæðingu, að hún er tilbúin að einkavæða ýmsa samkeppnisþætti hjá ríkinu. Samfylkingin ætlar hins vegar ekki að taka þátt í eða ljá máls á að einkavæða Ríkisútvarp, dreifikerfið eða símaljósleiðarann, ekki heilbrigðiskerfið og ekki menntakerfið. Svo einfalt er það. Fjóra þætti get ég talið upp sem ekki ætti að einkavæða: Ríkisútvarpið, dreifikerfið, heilbrigðiskerfið, menntakerfið. Fjögur gildi, stöndum saman um þau. Ég er sannfærð um að flestir landsmenn óska þess að við stöndum vörð um þessi gildi.

Herra forseti. Formaður Samfylkingarinnar hefur við allar umræður um fjárlög flutt yfirgripsmiklar ræður með ítarlegum upplýsingum. Skoðum nokkrar staðreyndir.

Fjárlögin 1999 fólu ekki í sér nægilegt aðhald að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Verðbólgan er meiri en í viðskiptalöndunum og viðskiptahallinn er nær 70 en 60 milljörðum kr., milli 8 og 9% af landsframleiðslu. Hreinar erlendar skuldir verða orðnar 84% af landsframleiðslu árið 2004.

Ríkisstjórnin bauð út nýtt hlutafé við einkavæðingu bankanna sem jók eigið fé banka, jók útlán og varð mikill þensluvaldur. Útlán húsbréfadeildar fóru yfir 7.000 milljónir fram úr heimildum og það var heimatilbúinn vandi af hálfu félmrh. Ríkisstjórnin jók heimildir til lífeyrissjóða til að fjárfesta erlendis úr 40 í 50%, áður var hvatt til þess en nú notar ríkisstjórnin og gagnrýnir lífeyrissjóðina og segir þá ábyrga fyrir vandanum.

Efnahagsstofnunin spáir því að viðskiptahallinn verði 70 milljarðar næsta ár og nái upp undir 10% af landsframleiðslu. Erlendar skuldir samhliða viðskiptahalla þýða að gagnvart útlöndum verður staðan neikvæð um 60% af landsframleiðslu næsta ár.

Opinberar framkvæmdir voru í lágmarki árið 1995--1996 en aldrei meiri, herra forseti, en í þenslunni undanfarið. Hins vegar er full ástæða til að benda á að þar sem Alþingi á í hlut er sífellt dregið úr. Enn stendur hér lokaður grunnur fyrirhugaðrar viðbyggingar á meðan ekki er tekið að neinu leyti á hjá ráðuneytunum. Það er umhugsunarefni fyrir Alþingi.

Herra forseti. Þær staðreyndir sem ég hef rakið hér eru allar úr opinberum skýrslum. Þær ganga þvert á stjórnkænsku stjórnarflokkanna. Ég gæti haldið hér langa ræðu en ætla ekki að gera það, herra forseti. Fulltrúar Samfylkingarinnar í fjárln., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Gísli S. Einarsson og Einar Már Sigurðarson hafa farið mjög vel yfir fjárlögin og hvað þau þýða, hvað úr þeim má lesa um stefnu stjórnarflokkanna. Ég ætla heldur ekki að bera fram neinar spurningar til fjmrh. eða formanns fjárln.

Hins vegar vil ég að það komi fram að á fundi með þingflokksformönnum fyrir kvöldmat í kvöld var það sjónarmið sett fram að við í stjórnarandstöðu mundum meta það kalt hvort það þjónaði pólitískum sjónarmiðum okkar að halda áfram þessari umræðu fram á nótt eða hvort það væri vænlegri kostur fyrir okkur að flytja ræður okkar við umræður um þau mál sem verða rædd eftir helgi, m.a. þau skattamál sem þá verða tekin fyrir og koma þá á framfæri þeim sjónarmiðum sem við höfum staðið við fjárlagaumræðuna. Það munum við gera. Við höfum verið öflug í þessari umræðu, henni er ekki lokið þó lokið verði 3. umr. fjárlaga, herra forseti.