Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 11. desember 2000, kl. 11:14:05 (3114)

2000-12-11 11:14:05# 126. lþ. 45.91 fundur 183#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 126. lþ.

[11:14]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. viðskrh. hefur sett spurningarmerki við það hvort eitthvað verði af þessari sameiningu bankanna. Hún hefur lagt málið upp með þeim hætti. Hún gæti ekki létt af óvissu um það hvort málið kæmi fram. Jafnframt hefur það komið fram bæði frá bankaráðsmönnum Búnaðarbankans og fleiri aðilum að þeir telji að ef þetta mál gangi ekki fram núna, þá sé það úr sögunni.

Það eru ekki margir dagar til stefnu og það hlýtur að vera umhugsunarefni hvað er að ef málið dettur upp fyrir einfaldlega vegna þess að það sé ekki hægt að afgreiða það núna fyrir jólin. Þetta er ekki lítið mál. Þetta hlýtur að vera mál sem menn þurfa að vanda sig við. Ég geri ekki ráð fyrir því að alþingismenn víki sér undan því að vinna að þessu máli. En það liggur fyrir að samkeppnisráð hefur ekki skilað því frá sér. Það er óvissa og ósamkomulag um vinnubrögð a.m.k. milli hæstv. ráðherra og bankaráðsins um það hvernig staðið er að málinu. Manni verður á að hugsa: Líta bankaráðsmenn ekki þannig á að hæstv. ráðherra sé þeirra yfirmaður? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Stendur til að kalla saman hluthafafund til þess að gera mönnum grein fyrir því hvaða stöðu þeir hafi gagnvart hæstv. ráðherra? Hvað er eiginlega fram undan í þessu máli?

Mér finnst a.m.k. algjörlega út í bláinn að halda því fram að þetta mál sé þannig þroskað og tilbúið að hv. Alþingi geti tekið það til afgreiðslu fyrir jól. Það hlýtur að þurfa að skoða málið miklu vandlegar úr því að það er ekki komið lengra núna heldur en raun ber vitni.