Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 11. desember 2000, kl. 11:20:18 (3117)

2000-12-11 11:20:18# 126. lþ. 45.91 fundur 183#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 126. lþ.

[11:20]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Hér er vissulega mikið stórmál á ferðinni því ætlunin er, ef af verður, að sameina tvo af þremur stærstu bönkum landsins. Við erum að tala um að sameina bankastofnanir sem ráða um það bil 60% af öllum bankamarkaði í landinu og því verð ég að segja, virðulegi forseti, að það getur ekki komið til álita að þingið ætli sér á þremur til fjórum dögum að fjalla um þetta mál, ég tala nú ekki um í ljósi þess sem hér hefur verið að gerast undanfarna daga. Þrátt fyrir að bæði Landsbankinn og Búnaðarbankinn hafi haft langan tíma til þess að vinna að þessu máli, þá er alveg ljóst að þær viðræður hafa verið mjög erfiðar og ef löggjafinn ætlar síðan að afgreiða þetta mál á þremur til fjórum dögum, þá er það einfaldlega þannig að fólkið í landinu hættir að bera virðingu fyrir Alþingi. Það getur ekki verið annað ef svona stórmál á að rúlla í gegn á nokkrum dögum.

Ég verð því að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég trúi því ekki úr því sem komið er að það komi til álita að þetta mál komi hér inn og það eigi að reyna að ljúka því fyrir jól. Þvílíkt stórmál er hér á ferðinni að það getur bara ekki verið og yrði þinginu til mikillar hneisu ef til þess kæmi að það yrði afgreitt á svona stuttum tíma.