Fjárlög 2001

Mánudaginn 11. desember 2000, kl. 12:40:07 (3155)

2000-12-11 12:40:07# 126. lþ. 45.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 126. lþ.

[12:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þessi fjárlög verða best nefnd óvissufjárlög og það er ekki allt sem sýnist við afgreiðslu þeirra. Þannig er hinn nafntogarði afgangur að helmingi til fenginn með sölu eigna. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá eru versnandi horfur á alla helstu mælikvarða efnahagsmála. Verðbólguspá hefur verið endurskoðuð til hækkunar um þriðjung og stefnir nú í tæplega 6% verðbólgu á næsta ári. Viðskiptahalli hefur tvöfaldast á þessu ári frá spá fyrra árs, úr 30 milljörðum rúmum í 60 milljarða og stefnir í að aukast á næsta ári. Viðskiptakjör fara versnandi.

Því miður breyta tilskipanir og yfirlýsingar hæstv. forsrh. um að allt sé í himnalagi, jafnvel þó að þær séu gefnar á Selfossi, engu um þessar staðreyndir mála. Við hljótum öll að vona að það takist að ná tökum á stjórn efnahagsmála án þess að þar verði kollsteypur en til þess verða menn að grípa til aðgerða og innihaldslausar Selfossyfirlýsingar nægja þar ekki til. Fyrsta skilyrðið er að horfast í augu við vandann, herra forseti, og komast af því afneitunarstigi sem einkennt hefur framgöngu hæstv. ríkisstjórnar.

Við þingmenn Vinstri hreyfingar -- græns framboðs sitjum hjá við lokaafgreiðslu fjárlagafrv., herra forseti.