Frestun vegaframkvæmda

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 13:46:37 (3162)

2000-12-12 13:46:37# 126. lþ. 46.1 fundur 189#B frestun vegaframkvæmda# (óundirbúin fsp.), GE
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. samgrh. Síðsumars var hávær umræða í kjölfar viðtals við hv. þm. Kristján Pálsson sem birtist í fjölmiðlum um að frestun framkvæmda við samgöngumannvirki mundi aðallega bitna á höfuðborgarsvæðinu. Samgrh. sagði þá að ekkert lægi fyrir ákveðið um málið. Undirritaður spurðist fyrir um frestun framkvæmda við 1. umr. um fjárlög. Þá kvaðst hæstv. samgrh. greina frá stöðu málsins fyrir og við 2. umr. um fjárlög. Nú er umræðu um fjárlög lokið. Því spyr ég: Hvaða framkvæmdum á að fresta fyrir upphæð sem nemur 800 millj. kr? Ef það er ekki ákveðið, mun frestunin þá bitna tiltölulega jafnt á landinu öllu?

Ítrekað var spurt, herra forseti, um þessi mál við 3. umr. um fjárlög. Fátt var um svör hjá starfandi samgrh. en þar sem málið er viðkvæmt er nauðsyn að fá svar við þessum spurningum sem fyrst vegna þess að upp komu viðkvæm augnablik í þessu máli strax á haustdögum þegar menn höfðu gefið yfirlýsingar um að skera ætti aðallega niður á höfuðborgarsvæðinu og því var hafnað. Það er nauðsynlegt fyrir þingið að fá að vita um þessi mál sem fyrst og ekki bara þingið, heldur hafa Reykvíkingar þrýst stöðugt á um að fá upplýst: Á að skera niður bara á Reykjavíkursvæðinu?