Frestun vegaframkvæmda

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 13:48:27 (3163)

2000-12-12 13:48:27# 126. lþ. 46.1 fundur 189#B frestun vegaframkvæmda# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að bera fram þessa fyrirspurn sem er afskaplega vinsæl um þessar mundir og hefur verið um nokkuð langan tíma, hvaða framkvæmdum eigi að fresta. Eins og hv. þm. þekkja er gert ráð fyrir að draga ögn saman seglin í vegagerð sem nemur 800 millj. kr. frá því sem vegáætlun gerir ráð fyrir. Ég sagði frá því í þinginu að ég gerði ráð fyrir að annars vegar yrði um að ræða framkvæmdir við svokallaða orku- og iðjuvegi, brú yfir Þjórsá og síðan framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og venja er þegar um frestun framkvæmda miðað við vegáætlun er að ræða er fjallað um það eftir að fjárlög hafa verið afgreidd með breytingum á vegáætlun. Ég geri ráð fyrir að ég muni leggja fram brtt. við vegáætlunina og þar með verði tekið á þessum málum endanlega. En það er alveg ljóst að framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, og kemur þá að atriði sem stundum virðist vera viðkvæmt hjá ýmsum hv. þm., að framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu eru ekki allar jafn vel undirbúnar. Það er að koma í ljós núna síðustu vikurnar að kostnaður hefur aukist verulega við ýmsar framkvæmdir svo sem eins og færslu Hringbrautar, mislæg gatnamót við Reykjanesbraut og Breiðholtsbraut og síðan eru Víkurvegargatnamótin og Vesturlandsvegargatnamótin í skoðun núna vegna breytinga á aðalskipulagi. Allt þetta leiðir til þess og mun leiða til þess að þeim framkvæmdum mun seinka. Þær fara seinna af stað á næsta ári en við höfðum gert ráð fyrir.