Frestun vegaframkvæmda

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 13:52:00 (3165)

2000-12-12 13:52:00# 126. lþ. 46.1 fundur 189#B frestun vegaframkvæmda# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[13:52]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að þær framkvæmdir sem ég nefndi hafi ekki komið hv. þm. á óvart að gætu verið þær framkvæmdir sem mundi verða að hægja á. Ástæður eru margvíslegar og skilyrðin fyrir því að við teljum forsvaranlegt að hægja á þeim framkvæmdum eru mikil spenna í efnahagslífinu, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu en jafnframt á það við um verktakamarkaðinn almennt þannig að á það allt saman verður að líta. En ég vil bara undirstrika það sem ég sagði áðan að ástæðan fyrir því að ég hef ekki borið fram tillögu til breytinga á vegáætluninni er að það eru mjög mörg verk sem eru í undirbúningi og er verið að vinna að á vegum Vegagerðarinnar sem mun verða að seinka af þeim ástæðum að undirbúningi hefur ekki nægilega miðað áfram og á það bæði við um skipulagsmálin og einnig umhverfismatið.