Aðgerðir lögreglunnar í fíkniefnamálum

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:13:01 (3182)

2000-12-12 14:13:01# 126. lþ. 46.1 fundur 193#B aðgerðir lögreglunnar í fíkniefnamálum# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:13]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. vegna fréttar á vef Morgunblaðsins í lok síðasta mánaðar sem vakti óhug. Ég les fréttina, með leyfi forseta, en þar segir svo:

,,Lögreglumenn í Hafnarfirði nutu aðstoðar sérþjálfaðs fíkniefnaleitarhunds við leit að ungmennum sem hlupu undan lögreglumönnum í fyrrakvöld.

Um miðnætti komu lögreglumenn að tveimur bílum skammt austan Hvaleyrarvatns sem í voru fimm piltar á aldrinum 17--18 ára, en grunur lék á að þeir væru að neyta fíkniefna. Þegar lögregla nálgaðist flúðu piltarnir á hlaupum.

Var þá sóttur leitarhundur til fíkniefnalögreglunnar í Reykjavík. Þegar lögreglumennirnir sneru aftur með hundinn gáfu fjórir piltanna sig strax fram. Þegar sá fimmti skilaði sér ekki var hundurinn sendur til að leita hans. Hann fannst svo á fjallinu Selhöfða þar sem hann var nánast kominn upp á topp en hafði lagst þar fyrir.

Nokkuð kalt var í veðri og auk þess að vera orðinn mjög kaldur var pilturinn í annarlegu ástandi, líklega af því að hafa neytt e-taflna.``

Ég spyr hæstv. ráðherra: Eru þetta aðferðir sem ráðherra telur vænlegar í baráttunni við fíkniefnavandann að siga hundum á 17 og 18 ára unglinga sem eru að fikta við fíkniefni? Ég spyr hæstv. ráðherra: Er hún sátt við slíkar aðferðir?