Aðgerðir lögreglunnar í fíkniefnamálum

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:15:53 (3185)

2000-12-12 14:15:53# 126. lþ. 46.1 fundur 193#B aðgerðir lögreglunnar í fíkniefnamálum# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:15]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Án þess að ég viti nákvæmlega um tildrög málsins, eins og ég sagði áðan, finnst mér líklegt að hundurinn hafi verið með í för til að leita að viðkomandi unglingi. Ég geri ráð fyrir því og það er auðvitað mikið öryggisatriði. Ég hygg að hv. þm. geti ekki verið annað en sammála því.

Það er full ástæða til að tryggja enn frekar þjálfun bæði fíkniefnahunda og leitarhunda. Við höfum verið svo lánsöm að björgunarsveitir hafa haft slíka hunda á sínum snærum og lögreglan hefur getað leitað til þeirra. Lögreglan er einnig sjálf með þessa hunda og þeir hafa komið að miklu gagni.

Ég vil undirstrika það, sem ég veit að hv. þm. veit mætavel, að auðvitað er lögreglan fyrst og fremst að leita að þeim sem flytja inn fíkniefni og selja fremur en einhverjum saklausum unglingum sem eru að fikta við slíka neyslu.