Staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:34:51 (3193)

2000-12-12 14:34:51# 126. lþ. 46.94 fundur 199#B staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:34]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Fyrirhyggjulítil aukning hlutafjár og sala hlutabréfa í Búnaðarbankanum og Landsbankanum á síðasta ári varð til að vekja óróa á peningamarkaði og ýta undir þenslu í þjóðfélaginu þegar frekar hefði þurft að hægja á. Þarna áttu sér stað meiri háttar mistök í efnahagsstjórn á síðustu missirum. Ofmat á eignum og stóraukin útlán fylgdu í kjölfarið en þessu hefði verið hægt að komast hjá.

Áfram heldur umræðan um enn frekari sölu eða sameiningu og þetta leiðir áfram af sér mikla pressu á hvorn bankann um sig, á að ná til sín sem stærstum hluta viðskiptanna á markaðnum. Afleiðingin er m.a. sú að bankarnir hafa keppst við að lána fé og ná sem stærstri viðskiptahlutdeild. Öll þessi umræða hefur aukið á spennu og þenslu í þjóðfélaginu. Hver eru þjónustumarkmiðin við sameiningu bankanna eins og hér eru fyrirhuguð? Er það bara fákeppni sem hér á að leiða okkur áfram?

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon varpaði fram spurningunni um hver væri staða bankamálaráðherra eða viðskrh. í þessu ferli sem hér á sér stað. Hann er jafnframt yfirmaður viðskiptabankanna, almennra bankamála og peningamála í landinu. Hann er líka yfirmaður þessara banka og fer með hlutabréfin í þeim bönkum sem þarna er um að ræða. Hann er líka æðsti yfirmaður Samkeppnisstofnunar sem á að leggja dóm á hvort þessi sameining fari að samkeppnislögum. Hann er yfirmaður allra þessara þátta.

Ég leyfi mér að spyrja, herra forseti: Hefur verið kannað hvort staða hæstv. viðskrh. í þessu máli sé eðlileg, lögleg eða siðleg? Hefði ekki átt að viðhafa önnur vinnubrögð og trúverðugri í þessari framkvæmd allri? Mér finnst fráleitt ef hér á rétt fyrir jól að keyra í gegn frv. um þetta mál af hreinu gáleysi.