Staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:41:48 (3196)

2000-12-12 14:41:48# 126. lþ. 46.94 fundur 199#B staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:41]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Mér þykir þingmönnum vaxa þetta mál mjög í augum. Þegar Fjárfestingarbankinn og Íslandsbanki voru sameinaðir þá gerðist það á örfáum dögum og hluthafafundir í báðum bönkum samþykktu sameininguna örfáum dögum síðar. Það óx ekki þeim aðilum í augum.

Hér mun birtast þinginu málið sem þannig er vaxið að fyrir liggur umfangsmikil samrunaskýrsla sem bankarnir hafa unnið sameiginlega. Það munu menn hafa í höndunum þegar að sameiningarákvörðunum kemur hér. Þess utan hefur ekki verið veigamikill ágreiningur um þessa sameiningu nema við flokk hv. málshefjanda. Ég minnist þess að formaður Samfylkingarinnar, væntanlega í hennar nafni, lýsti því yfir að hann væri ekki á móti sameiningu, hann vildi bara selja bréfin í báðum bönkunum fyrst og láta svo markaðinn um að sameina. (Gripið fram í.) Ég heyrði hann segja það. Hann hefur kannski skipt um skoðun síðan, breyst í villidýr eins og í öðrum einkavæðingarmálum, það má vel vera. En það er afskaplega undarlegt hve málið vex mönnum í augum. Það verð ég að segja fyrir mig.

Hv. málshefjandi sagði áðan að íhlutun hæstv. viðskrh. væri undarleg. Þegar Útvegsbankinn var sameinaður öðrum bönkum þá sat hv. þm. í ríkisstjórn --- ekki satt? Ég man ekki betur. Ég man ekki betur en þáv. hæstv. viðskrh., síðar ágætur samstarfsmaður minn, Jón Sigurðsson, hafi heldur betur skipt sér af, ekki bara saumað heldur handheklað hverja einustu lykkju í því máli, persónulega. Ég heyrði ekki hv. málshefjanda, sem þá var ráðherra, gera nokkra einustu athugasemd við þann málatilbúnað.