Staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:48:15 (3199)

2000-12-12 14:48:15# 126. lþ. 46.94 fundur 199#B staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vil segja það við hina miklu hannyrðakonu, hæstv. forsrh., að það skýrir ekki málin að grauta í málinu og bera saman algerlega ósambærilega hluti, þ.e. að bera saman við ástandið í dag löggjöf og aðstæður á þeim tíma að Útvegsbankinn í 100% eigu ríkisins rann saman við aðra banka fyrir löngu síðan.

Í öðru lagi vil ég benda á að ræðuhöld hv. þm. Hjálmars Árnasonar um ofurháa vexti eru fyrst og fremst árás á hæstv. forsrh., yfirmann Seðlabankans, sem haldið hefur uppi gengi krónunnar með því að hækka vexti æ ofan í æ. Telji hv. þm. hins vegar að vaxtamunur sé of mikill, sem er rétt, þá er það annað mál sem ætti að ræðast undir þeim formerkjum.

Hæstv. viðskrh. greip til þess ráðs þegar hún réttlætti íhlutun sína í lögbundið verkefni bankaráðsins að vitna til hlutafélagalaga, horfa fram hjá ákvæðum laganna um viðskiptabanka og sparisjóði og taldi til það ákvæði hlutafélagalaga að bankaráði eða stjórn hlutafélags bæri að gæta hagsmuna hluthafa og fyrirtækisins. Hæstv. ráðherra sagði --- og það er miklu alvarlegri ásökun heldur en að tala um klaufaskap --- að hún hefði verið þeirrar skoðunar að það væru forsvarsmenn Búnaðarbankans ekki að gera. Það er mjög alvarleg ásökun ef ráðherra telur að þeir hafi haldið svo illa á hlut Búnaðarbankans í málinu að þeir hafi borið fyrir borð hagsmuni hluthafanna og fyrirtækisins.

Hæstv. ráðherra taldi að því miður væru engin tök á því að gefa yfirlýsingu sem eyddi óvissu gagnvart starfsfólki. Þetta er einfaldlega rangt. Þetta geta stjórnendur bankans gert hér rétt eins og t.d. í Danmörku. Í tengslum við sameiningu Den danske bank við annan banka er gefin þriggja ára aðlögunartími að því að finna starfsfólkinu ný störf.

Munurinn á þessu máli og öðrum, herra forseti, er sá að það er greinilega djúpstæður ágreiningur bak við tjöldin og andstaða starfsfólks við þessi áform.