Breyting á XI. viðauka við EES-samninginn

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 15:20:18 (3203)

2000-12-12 15:20:18# 126. lþ. 46.7 fundur 312. mál: #A breyting á XI. viðauka við EES-samninginn# (rafrænar undirskriftir) þál., Frsm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Frsm. utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 66/2000, um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 66/2000, um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn. Sú gerð sem um ræðir varðar ramma Evrópubandalagsins um rafræna undirskrift. Ákvörðunin kallar á lagabreytingar hér á landi og er stefnt að því að frv. til laga um rafrænar undirskriftir verði lagt fram á Alþingi snemma á árinu 2001.

Rétt er að minna á að sú málsmeðferð sem hér um ræðir er hin sama og viðhöfð var í tengslum við alls 19 ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem eins var ástatt um, en þáltill. þess efnis var flutt og afgreidd á 125. löggjafarþingi. Í athugasemdum með þeirri tillögu var skýrt frá því að framvegis yrði það verklag viðhaft að flytja sérstaka þál. um þær ákvarðanir sem samþykktar hafa verið af sameiginlegu EES-nefndinni með fyrirvara skv. 103. gr. EES-samningsins og er sú leið farin hér og nú.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt. Undir nefndarálitið skrifa Tómas Ingi Olrich, Árni Ragnar Árnason, Jónína Bjartmarz, Steingrímur J. Sigfússon og Þórunn Sveinbjarnardóttir en hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Jón Kristjánsson og Sighvatur Björgvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.