Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 15:54:45 (3208)

2000-12-12 15:54:45# 126. lþ. 46.6 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[15:54]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur fram í yfirlýsingunni sem ég las upp áðan frá Verkalýðsfélaginu Vöku á Siglufirði að ekki er um að ræða eingöngu þessar breytingar þegar niðurstaðan er sú að forsendur kjarasamninga séu brostnar heldur ýmis önnur atriði eins og þau sem ég fór yfir áðan og felast í spá Þjóðhagsstofnunar um 0,5% hækkun kaupmáttar, sem er mun minna en menn gerðu ráð fyrir, og hækkun verðlags á milli ára um 5,8% og hækkandi vextir og versnandi kjör heimilanna. Skuldir heimilanna hafa vaxið gífurlega á síðasta ári, um 100 milljarða bara á því ári sem nú er að líða, frá 500 milljörðum upp í 600 milljarða. Staða margra heimila er mjög erfið.

En það sem verkalýðshreyfingin bendir á er að þessar breytingar plús allar aðrar sem felast í spá Þjóðhagsstofnunar og koma fram í forsendum fjárlaga fyrir árið 2000 þýða samanlagt að brostnar séu forsendur fyrir launalið samninganna og því sé ástæða til þess að segja þeim upp. Ég spyr um þetta vegna þess að af þessu hljótum við að hafa áhyggjur.

Hvað það varðar að sveitarfélögin séu að velta ábyrgðinni yfir á ríkissjóð, virðulegi forseti, þá vil ég aðeins svara því með orðum bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Áhrif ýmissa laga- og reglugerðarbreytinga hafa leitt til aukinna útgjalda sveitarfélaga án þess að í öllum tilvikum hafi verið tryggt að nægjanlegir tekjustofnar hafi fylgt í kjölfarið.

Skattalagabreytingar undanfarinna ára hafa skert útsvarstekjur sveitarfélaga og þannig skapað ákveðið ósamræmi á milli þróunar útgjalda og tekna.

Mörg sveitarfélög hafa séð sig knúin til að mæta kröfum íbúanna um aukið þjónustustig umfram fjárhagslega getu þeirra.

Í sumum tilvikum hefur þrýstingur á aukna þjónustu sveitarfélaganna verið afleiðing af ónógri þjónustu ríkisins.``

Þarna er um að ræða algerlega öfuga fullyrðingu, að ríkið hafi velt ábyrgðinni yfir á sveitarfélögin.