Matvæli

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 16:40:47 (3215)

2000-12-12 16:40:47# 126. lþ. 46.10 fundur 74. mál: #A matvæli# (eftirlit, gjaldskrá o.fl.) frv. 169/2000, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[16:40]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða frv. sem felur í sér mikla bót á þeirri löggjöf sem fyrir er en það kemur fram fyrst í frv. þar sem segir í athugasemdum, fskj. frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. í umsögn um breytingarnar á lögunum um matvæli.

Tilgangurinn með frv. er að tryggja gæði matvæla og samhæfa aðgerðir stjórnvalda sem sjá um matvælaeftirlitið. Frv. kveður á um auknar rannsóknir, greiningar, námskeið, þjálfun og sértækar ráðstafanir.

Gert er ráð fyrir að aukinn kostnaður verði greiddur af framleiðendum. Verði frv. að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð. Ég vildi spyrja hv. þm., frsm. fyrir nefndaráliti umhvn., hvort mat hafi verið lagt á það sérstaklega hver þessi kostnaður yrði. Mér sýnist að það sé mjög veigamikil starfsemi sem er verið að setja á laggirnar. Hvað er þá verið að tala um mikinn kostnað fyrir þá sem koma til með að bera kostnaðinn af allri þessari auknu starfsemi? Hefur það verið skoðað sérstaklega í nefndinni og hvernig skiptist það á þá sem koma til með að bera þennan kostnað? Hefur það verið rætt innan nefndarinnar að samræma þetta þannig að matvælaeftirlitið sé á hendi eins ráðherra?