Matvæli

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 16:49:09 (3219)

2000-12-12 16:49:09# 126. lþ. 46.10 fundur 74. mál: #A matvæli# (eftirlit, gjaldskrá o.fl.) frv. 169/2000, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[16:49]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Við erum í 2. umr. að ræða um frv. til laga um breytingu á lögum um matvæli. Hv. umhvn. hefur haft þetta mál til umfjöllunar og gerði ítarlega athugun á því. Frv. er hluti af viðbrögðum yfirvalda við kampýlóbaktersýkingu í matvælum á síðasta ári sem er okkur öllum mjög ferskt í minni. Markmiðið með þessu frv. er að draga úr sýkingu af völdum kampýlóbakter sem náði hámarki á síðasta ári. Ýmsar ráðstafanir hafa verið gerðar á þessu ári, m.a. vann hv. heilbrn. að breytingum á sóttvarnalögum fyrr á árinu í þeim tilgangi að styrkja stjórnkerfið til að taka á kampýlóbaktersýkingum.

Nýlegar fregnir í fjölmiðlum, bara í síðustu viku ef ég man rétt, benda til að verulegur árangur hefur náðst í þessum efnum. Var sagt frá því að tök stjórnvalda á þessu máli séu nú til sérstakrar skoðunar á Norðurlöndum og til þess að skoða sem fyrirmynd. Það eru þó ekki eingöngu þessar sýkingar sem hafa verið í gangi sem kalla á opnari reglur heldur eru einnig auknar kröfur í þjóðfélaginu og ekki síst hjá neytendum að matvæli uppfylli öryggiskröfur og matvæli séu í lagi og einnig hefur þetta verið samfara aukinni vitund þeirra sem eru í matvælaframleiðslu.

Með frv. er í fyrsta lagi verið að auka neytendavernd. Í öðru lagi að innleiða opnara og hreinskiptara kerfi til að bregðast við þegar mál fara af einhverjum ástæðum úrskeiðis og upp koma sýkingar í matvælaiðnaði sem geta verið skaðlegar mönnum. Í þriðja lagi má segja að verið sé að auka ábyrgð framleiðenda og dreifiaðila á vörum sínum.

Í frv. er sérstaklega tekið á nokkrum þáttum. Í fyrsta lagi er tekið á þáttum sem snúa að fræðslu starfsfólks um meðferð matvæla þar sem gerðar eru auknar kröfur um þekkingu starfsfólks í matvælaiðnaði um meðhöndlun matvæla. Það er gert með því að ráðherra er heimilt að setja reglur um að þeim sem starfa í þessum iðnaði verði gert að sækja námskeið um meðferð matvæla. Það varð að umræðuefni í ræðu hv. þm. Kristjáns Pálssonar hér á undan og í andsvörum hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur var einmitt þetta atriði tekið til umfjöllunar. Ég lít svo á að það séu hagsmunir fyrirtækjanna að hafa gæðamál sín í lagi. Eitt af því er að starfsfólkið, sem kemur að matvælaframleiðslunni, sé hæft til að takast á við þau verkefni. Það var verið að velta fyrir sér hver eigi að bera kostnaðinn af þessu.

Starfsmannavelta í þessum fyrirtækjum er verulega mikil og í hvert sinn sem komið er með fræðslu eða þekking fólks aukin er um leið tekið á því vandamáli sem starfsmannaveltan er. Um leið og fólk hefur meiri þekkingu á þeim störfum sem það sinnir, því meiri líkur eru á að það haldist í störfum. Skoðun mín er sú að það sé hluti af starfsemi fyrirtækjanna að sjá um þessa fræðslu. Hins má hugsa sér að starfsmenntasjóðir verkalýðsfélaganna taki þátt í greiðslu á kostnaði vegna slíkra námskeiða þannig að það séu tveir aðilar, verkalýðsfélögin og fyrirtækin sem koma að þessu.

Annað atriði sem frv. felur í sér er að það leiðir til aukinna forvarna. Það leiðir til að ábyrgð framleiðenda og dreifiaðila á matvöru í framleiðslu sinni eða vöru sem þeir dreifa er aukin samkvæmt 2. gr. frv. Þeim er gert að tilkynna til hlutaðeigandi stofnana verði þeir þess varir að vörur þeirra séu sýktar og feli í sér hættu á heilsustjóni. Þá er einnig sambærileg skylda sett á eftirlitsaðila og þá sem hafa matvælasýni til rannsóknar, m.a. í því skyni að skima örverur. Þessi þáttur, forvarnaþátturinn og aukin ábyrgð þessara aðila, er sérstaklega mikilvæg í ljósi þeirra matarsýkinga sem hafa átt sér stað á undanförnum árum og hún er í samræmi við nútímaleg viðhorf um opið samfélag og neytendavernd. Tilkynningarskylda þessara aðila er fyrst og fremst bundin við þær örverur sem eru tilkynningarskyldar samkvæmt ákvæðum sóttvarnalaga og geta valdið heilsutjóni. Frv. tekur á þessum þáttum en einnig á þeim þáttum að eftirlitsaðilum er heimilt að grípa til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir matarsjúkdóma eða smithættu.

Ég vil í þessu sambandi sérstaklega nefna atriði sem umsagnaraðilar gerðu mestar athugasemdir við og þá á ég sérstaklega við matvælafyrirtækin og rannsóknarstofur en þær voru mótfallnar því að sett væri skylda á rannsóknarstofur að tilkynna ef sýni sem þær eru með til rannsóknar séu athugaverð og þær þurfi að tilkynna það til hlutaðeigandi yfirvalda. Þetta var í raun helsta álitaefnið í nefndinni og við velktumst fram og aftur með þetta. Hérna erum við að tala um rannsóknaraðila sem eru með sýni til rannsóknar. Þetta geta ýmist verið einkaaðilar eða opinberir aðilar og þeir hafa oft sýni til rannsóknar samkvæmt sérstökum samningi við matvælaframleiðanda eða dreifiaðila. Þau sjónarmið komu fram hjá framleiðendum og dreifiaðilum að með þessu ákvæði væri verið að stefna í hættu trúnaði milli rannsóknarstofu og framleiðanda og jafnvel væri hætta á því að framleiðandi leitaði til erlendrar rannsóknarstofu um rannsóknir og þessir erlendu aðilar hefðu ekki sambærilegar skyldur og íslenskir aðilar sem gerði það að verkum að sýkingar af þessu tagi mundu ekki uppgötvast fyrr en í óefni væri komið. Jafnvel var látið að því liggja að framleiðandi mundi hætta eða öllu heldur draga úr rannsóknum og þeir teldu að ekki væri þörf á að rannsóknarstofur hefðu slíka tilkynningarskyldu þar sem innra eftirlitið í fyrirtækjum sé það öflugt og að tilkynningarskyldan ætti fyrst og fremst að vera hjá framleiðslufyrirtækinu eða dreififyrirtækinu sjálfu.

Við ræddum þetta fram og til baka og komust að þeirri niðurstöðu að rétt væri að hafa rannsóknarstofur þarna inni sem aðila sem ætti að tilkynna en um leið töldum við að með því að setja þessa skyldu á rannsóknaraðilana værum við með engu móti að draga úr skyldu framleiðenda eða dreififyrirtækis að tilkynna um sýkingar í matvælum og þar lægi fyrst og fremst ábyrgðin.

Það sem okkur fannst hins vegar veigamest í þessu var að sýkingar af þessu tagi, sem varða sóttvarnalög varða almannahagsmuni, og er brýnt að tekið sé á þeim um leið og þær komast upp og má í rauninni segja að um þegnskyldu sé að ræða. Til samanburðar má nefna að dýralæknar og læknar hafa sambærilega skyldu til að tilkynna hættulegar sýkingar.

Okkur fannst líka að þetta væri í samræmi við nútímaleg vinnubrögð í matvælaiðnaði og neytendasjónarmið að allt sem snýr að öryggi í framleiðslu og dreifingu væri uppi á borðinu, það væri enginn feluleikur í gangi. Þetta væri allt saman uppi á borðinu og þyrfti að taka á því með þeim hætti að öllum aðilum, sem hafa einhverja nasasjón af því að framleiðslan sé ekki í lagi eða varan ekki í lagi, beri skylda til að koma þeim upplýsingum á framfæri með hagsmuni neytenda að leiðarljósi.

Einnig komumst við að því að framleiðendur og dreifiaðilar þurfa að hlíta ákveðnum reglum um innra eftirlit, þar á meðal tíðni sýnatöku. Sú hætta sem framleiðendur töldu að væri fyrir hendi, að þeir mundu hætta að senda sýni til rannsóknar, væri ekki fyrir hendi vegna þess að eftirlitið og reglurnar eru þess eðlis að ekki væri hætta á slíku. Niðurstaða okkar var því sú að ekki væri hætta á að traust milli rannsóknaraðila og framleiðanda eða dreifiaðila yrði fyrir borð borið því að þarna væru bæði framleiðendur og þeir sem rannsaka sýni tilkynningarskyldir. Að sjálfsögðu væri meginábyrgðin áfram hjá framleiðanda hér eftir sem hingað til.

Þetta voru þau atriði sem ég vildi ræða varðandi þetta frv. um matvæli sem tekur á kampýlóbaktersýkingum. Eins og ég sagði í byrjun ræðu minnar virðist sem stjórnvöldum hafi tekist þokkalega til að ráðast gegn þessum vanda með þeim ráðstöfunum sem hafa verið gerðar, fyrst með breytingu á sóttvarnalögum og síðan núna til að hnykkja á þessu atriði með breytingu á lögum um matvæli.