Matvæli

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 16:59:50 (3220)

2000-12-12 16:59:50# 126. lþ. 46.10 fundur 74. mál: #A matvæli# (eftirlit, gjaldskrá o.fl.) frv. 169/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[16:59]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi geta þess til að fyrirbyggja allan misskilning að ég er sammála efnisinnihaldi frv. Ég tel að þær reglur sem verið er að setja séu af hinu góða og við þurfum mjög strangt og öflugt eftirlit með matvælum til að draga úr sýkingarhættu sem hefur verið mikið rædd á undanförnum tveimur árum. Ýmislegt hefur kannski orðið til þess að sýking í matvöru hefur verið heldur meiri en áður þekktist, hvort sem það er af því að matvælin hafi verið sýktari eða rannsóknirnar hafi verið öflugri þannig að við höfum betur gert okkur grein fyrir því hver staðan raunverulega er.

[17:00]

Hins vegar er það þannig að við erum með nokkur smærri og stærri matvælafyrirtæki sem búa nú við ýmsar álögur og eftirlitsgjöld sem þau þurfa að greiða og mjög flókið kerfi. Þau hafa mjög oft komið því á framfæri við ýmsar þingnefndir að samræma þyrfti þessa gjaldtöku og eftirlit. Það þyrfti að ganga þannig frá bæði varðandi starfsleyfisveitingar, eftirlit með starfseminni, ýmis þjónustugjöld og annað sem þeim er gert að innheimta eða greiða, að ein samræmd löggjöf væri í þessum efnum. Það má vel vera, ef heildarendurskoðun á löggjöf, sem bent er á í nefndarálitinu að þurfi að eiga sér stað í samræmi við þá löggjöf sem mun verða tekin í gildi á vegum Evrópusambandsins þegar ný matvælastofnun Evrópu verður til, að tekið verði tillit til þeirra skoðana sem hafa komið fram hjá matvælaframleiðendum sem eru æðimargir hér og sumir hverjir smáir. Þessi gjaldtaka er því verulegur baggi á mörgum fyrirtækjum. Þess vegna hefði mér fundist eðlilegt, og er ekkert endilega við störf nefndarinnar að sakast heldur kannski fyrst og fremst þá sem sjá um kostnaðarmat á viðkomandi frv. sem hér koma inn og ég hef áður nefnt, því þetta er ekkert einskorðað við frv. sem eru til umfjöllunar í þessari hv. nefnd, að það mætti fylgja með ítarlegt kostnaðarmat og að menn reyndu að gera sér grein fyrir því hvaða kostnað við erum að tala um, hvaða álögur við erum að tala um að verði lagðar á viðkomandi fyrirtæki. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni að fyrr eða síðar fer þetta út í verðlagið á matvöru. Þegar við búum við það að verðlag sem hefur farið hækkandi á undanförnum mánuðum og reiknað er með að hækki enn frekar á næsta ári á innflutningi á öllum aðföngum hjá þessum fyrirtækjum, ef síðan koma þar til viðbótar ýmis eftirlitsgjöld eða gjöld sem þessari starfsemi er gert að greiða jafnframt því að standa fyrir námskeiðshaldi, getur þetta orðið þessum fyrirtækjum, sérstaklega minni fyrirtækjunum í matvælaiðnaði ofviða.

Hv. þm. Ásta Möller kom áðan inn á það að starfsmannaveltan hefði verið mjög mikil í í fyrirtækjum í matvælaiðnaðinum og það er alveg rétt. Það er m.a. vegna þess að laun í fyrirtækjum, sem starfa í matvælaiðnaði, eru afar lág og þess vegna er starfsmannaveltan svona mikil. Námskeið hlytu að gefa starfsmanni heldur hærri laun, meiri réttindi til launa sem gæti þá þýtt meiri launakostnað hjá viðkomandi fyrirtæki. Þetta eru þættir sem þarf að skoða mjög vel þegar Alþingi tekur ákvarðanir sem þessar.

Virðulegi forseti. Ég mun styðja þetta frv. Ég tel að það sé til bóta en ég held að í framtíðinni mættu hv. þm. og þingnefndirnar taka enn frekar til skoðunar þann kostnað sem frv. fela í sér, ekki eingöngu það sem snýr að ríkisútgjöldum eða hinu opinbera heldur og ekki síður það sem snýr beint að fyrirtækjum og getur farið beint út í verðlagið. Ég hef áður í ræðum í dag út af öðrum málum nefnt að skuldastaða heimilanna fer síversnandi. Miðað við þá spá sem Þjóðhagsstofnun hefur gefið út er reiknað með því að staða fjölskyldufólks fari versnandi á næsta ári. Ef við erum síðan að afgreiða frá okkur frv., sem mun koma fram í hærra matvöruverði á íslenskri framleiðslu, er það auðvitað nokkuð sem við þurfum að taka til rækilegrar skoðunar. Ég ítreka einnig að mikil nauðsyn er á því að samræma í eina heildarlöggjöf alla slíka eftirlitsstarfsemi. Það er nánast óþolandi að þetta falli undir fleiri en eitt ráðuneyti og menn verða að ná um það samkomulagi hvernig með það skuli farið. Mig minnir að varaþingmaður, Katrín Andrésdóttir dýralæknir, hafi lagt til að búið yrði til eitt sérstakt ráðuneyti, matvælaráðuneyti og þá mundi þetta eftirlit að sjálfsögðu falla undir það ráðuneyti og hægt væri að vera með samræmt eftirlit. Eins og fyrirkomulagið er í dag er það óhagkvæmt. Það er dýrara í framkvæmd og hætta á því að um misræmi á milli einstakra greina innan matvælaiðnaðar sé að ræða þegar fyrirkomulagið er með þeim hætti sem við búum við í dag. Ég vildi því, virðulegi forseti, aðeins hvetja til þess að í framtíðinni legðum við mikla vinnu í þá kostnaðarúttekt sem þarf að fylgja þegar við erum að setja álögur á íslenskan iðnað og íslensk fyrirtæki sem getur farið beint út í verðlagið og bitnað illa á fjölskyldum landsins.