Námsmatsstofnun

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 17:39:40 (3227)

2000-12-12 17:39:40# 126. lþ. 46.12 fundur 176. mál: #A Námsmatsstofnun# (heildarlög) frv. 168/2000, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[17:39]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og brtt. um frv. til laga um Námsmatsstofnun frá menntmn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti til viðræðna um það og einnig bárust nefndinni umsagnir sem komu að góðu gagni við umfjöllun málsins.

Með frv. fer fram endurskoðun á lögum um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, nr. 76/1993, í samræmi við breytingar sem orðið hafa á síðustu árum á löggjöf á sviði menntamála. Í frv. er lagt til að heiti Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála verði breytt í Námsmatsstofnun og hlutverki hennar breytt þannig að hún annist hluta þeirra verkefna sem unnin hafa verið á vegum Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála. Lagt er til að lögbundið hlutverk Námsmatsstofnunar verði að annast prófagerð og prófaframkvæmd og rannsóknir tengdar námsmati, þar á meðal samanburðarrannsóknir við skólastarf í öðrum löndum. Gert er ráð fyrir að aðrar rannsóknir á sviði uppeldis- og menntamála færist til háskóla landsins en innan þriggja þeirra er unnið að rannsóknum á því sviði. Við umfjöllun málsins kom fram að rannsóknir í háskólum eru mjög að eflast og breytingin því til þess fallin að styrkja þá í því starfi. Nefndin vill þó taka fram að mikilvægt er að áfram verði lögð áhersla á þann þátt rannsókna sem snýr að námsmati hjá Námsmatsstofnun þrátt fyrir breytingar á hlutverki hennar og telur nefndin afar brýnt að hún hafi möguleika á að vinna úr niðurstöðum samanburðarrannsókna við útlönd.

Varðandi umfang stofnunarinnar kom fram í máli fulltrúa menntmrn. að ekki væri búist við því að umsvif stofnunarinnar ykjust verulega við breytinguna. Prófadeildin, sem er umfangsmesta deildin, mundi líklega stækka enn frekar vegna fyrirhugaðra samræmdra prófa í framhaldsskólum. Að öðru leyti yrðu umsvif stofnunarinnar ekki meiri en verið hefur.

Í frv. er ekki gert ráð fyrir að forstöðumaður stofnunarinnar þurfi að uppfylla nein hæfnisskilyrði. Ræddi nefndin það nokkuð og varð niðurstaðan sú að leggja til breytingu við frv. þannig að gerðar yrðu svipaðar hæfniskröfur til forstöðumannsins og gerðar eru til háskólakennara en þó er ekki gert ráð fyrir dómnefnd við valið. Felur brtt. nefndarinnar í sér að forstöðumaður skuli hafa lokið meistaraprófi eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu og hafa sýnt þann árangur í starfi að hann njóti viðurkenningar á starfssviði sínu.

Í 6. gr. frv. er að finna mjög almenna reglugerðarheimild. Að mati nefndarinnar er einungis þörf á reglugerðarheimild við 2. gr. frv. þar sem fjallað er um verkefni stofnunarinnar og leggur nefndin til breytingu í samræmi við það.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson og Kristinn H. Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Ásamt þeirri sem hér stendur rita eftirtaldir þingmenn undir nefndarálitið: Árni Johnsen, Kolbrún Halldórsdóttir, með fyrirvara, Ólafur Örn Haraldsson, Sigríður Jóhannesdóttir, með fyrirvara, Tómas Ingi Olrich og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.