Námsmatsstofnun

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 17:43:20 (3228)

2000-12-12 17:43:20# 126. lþ. 46.12 fundur 176. mál: #A Námsmatsstofnun# (heildarlög) frv. 168/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[17:43]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. formanns menntmn. skrifa ég undir þetta nefndarálit sem hér er til umfjöllunar með fyrirvara. Fyrirvari minn helgast fyrst og fremst af því að ég tel rannsóknarþátt í starfi stofnunarinnar verða út undan við þessa afgreiðslu. Lögbundið hlutverk Námsmatsstofnunar frá því sem var þegar stofnunin hét Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála yrði í sjálfu sér skert, þ.e. verksvið stofnunarinnar og hún gerð að hluta til ekki vanhæf en síður hæf til að gegna því hlutverki sem henni er þó ætlað.

Það sem ég vil ítreka í þessu máli, herra forseti, er að eins og fram kemur í nefndarálitinu er gert ráð fyrir því að aðrar rannsóknir á sviði uppeldis- og menntamála séu þær sem Rannsóknastofnun menntamála hefur hingað til annast og aðrar rannsóknir en samanburðarrannsóknir við skólastarf í öðrum löndum fari til háskóla landsins því að innan þriggja þeirra sé unnið að rannsóknum á því sviði. Þetta er auðvitað satt, herra forseti, en við skulum ekki gleyma því hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur sinnt rannsóknarþætti háskólanna hingað til. Allir háskólar okkar búa við minna fjármagn til rannsókna en þeir telja nauðsynlegt. Ég sé því ekki að þessu rannsóknahlutverki sem Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála hefur hingað til séð um verði fyrir komið hjá háskólanum án þess að því fylgi fé.

Við 1. umr. um þetta frv. ræddi ég um umsögn fjármálaskrifstofu fjmrn. og gerði athugasemd við hana. Fjárlagaskrifstofa fjmrn. telur að frv. hafi ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum. Tvennt í þessu finnst mér skorta á varðandi umsögn fjárlagaskrifstofu. Í fyrsta lagi er verið að fjölga samræmdum prófum sem þýðir að rannsóknir vegna prófa og námsmat kemur til með að aukast. Þar af leiðandi verður umfang Námsmatsstofnunar meira en Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála að þessu leyti. Sömuleiðis hvað varðar rannsóknarþáttinn er greinilegt að það á ekki að koma aukið fé til þeirra þátta sem mér sýnist að geti þá kostað það að hluti nauðsynlegra rannsókna verði ekki gerður.

Varðandi brtt. sem fyrir liggja á þskj. 452 þá lýsi ég mig fyllilega sammála þeim. Ég tel mig þá hafa gert grein fyrir fyrirvara mínum við þetta mál.