Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 18:28:05 (3237)

2000-12-12 18:28:05# 126. lþ. 46.17 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv. 166/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[18:28]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Eins og kom fram hjá frsm. efh.- og viðskn. ritum við þrjú sem skipuðum minni hlutann í þessu máli við afgreiðslu þess úr efh.- og viðskn. undir nefndarálitið með fyrirvara. Ásamt mér undirrituðu nefndarálitið með fyrirvara hv. þm. Ögmundur Jónasson og Jóhann Ársælsson.

Ég vil í nokkrum orðum, herra forseti, gera grein fyrir fyrirvara okkar. Þetta mál hefur fengið nokkra umræðu á hv. þingi enda nokkuð um liðið síðan ríkisstjórnin boðaði þær breytingar sem eru í þessu frv. þar sem er verið að bæta nokkuð úr til fjölskyldna varðandi barnabætur, m.a. til þess að efna loforð í tengslum við kjarasamninga og eins til að efna loforð, a.m.k. annars stjórnarflokksins um auknar barnabætur. Það var eitt helsta kosningaloforð Framsfl. í síðustu kosningum að koma á svokölluðum barnakortum.

Auðvitað má segja ýmislegt um þetta mál en það sem vakti athygli mína við umfjöllun málsins í efh.- og viðskn. voru nokkur atriði sem ég vildi koma inn á, herra forseti.

Í fyrsta lagi óskuðum við fulltrúar minni hlutans eftir því að fulltrúar svokallaðs fjölskylduráðs kæmu á fund nefndarinnar. Fjölskylduráði var komið á fót í tengslum við mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar samkvæmt þáltill. sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir og var samþykkt á Alþingi. Verkefni fjölskylduráðs er að veita stjórnvöldum ráðgjöf í fjölskyldumálum, t.d. vegna áforma um stjórnvaldsaðgerðir jafnframt því að koma á framfæri ábendingum um úrbætur í fjölskyldumálum.

[18:30]

Einstaka sinnum hefur verið vitnað til fjölskylduráðs úr þessum ræðustól. Þær væntingar voru bundnar við þetta fjölskylduráð að fyrir það mundu fara þau mál sem ríkisstjórnin legði fram á þinginu og fjölluðu með einum eða öðrum hætti um hag fjölskyldnanna í landinu. En samkvæmt orðanna hljóðan á fjölskylduráð að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í fjölskyldumálum, t.d. vegna áforma um stjórnvaldsaðgerðir.

Skemmst er frá því að segja, herra forseti, að tveir fulltrúar fjölskylduráðs mættu á fund efh.- og viðskn. og upplýstu nefndina um að fjölskylduráð hefði hvorki fengið þetta mál til umsagnar né önnur þau mál sem hafa komið til kasta ríkisstjórnarinnar frá því að fjölskylduráðið var sett á laggirnar, þ.e. þau mál sem fjalla með einum eða öðrum hætti um málefni fjölskyldunnar. Ekki í einu einasta tilviki hefur verið leitað álits svokallaðs fjölskylduráðs til að vera ríkisstjórninni til halds og trausts og ráðgjafar í málefnum fjölskyldunnar. Maður spyr, herra forseti: Til hvers er verið að samþykkja slíkt mál á hv. Alþingi? Er það bara einhver silkihúfa eða sýndarmennska hjá hæstv. ríkisstjórn að beita sér fyrir samþykkt slíkrar tillögu um mótun opinberrar stefnu í fjölskyldumálum með stofnun fjölskylduráðs sem á að vera stefnumótandi fyrir ríkisstjórnina og ráðgefandi og álitsgefandi um mál sem hún fjallar um? Ekki er leitað í einu einasta tilviki til þessa fjölskylduráðs, eða hefur verið gert. Þessir fulltrúar fjölskylduráðs stjórnvalda upplýstu okkur um að fjölskylduráð hefði í tvígang ritað hverju einasta ráðuneyti til að vekja athygli stjórnvalda á tilvist sinni til að stjórnvöld færu að leita ráða hjá þeim og umsagnar um mál sem snerta fjölskylduna eins og stjórnvöldum ber að gera samkvæmt þeirri þáltill. sem Alþingi samþykkti. Þetta, herra forseti, vakti athygli mína og er ástæða til að fylgjast með því úr þessum ræðustól og þegar stjórnarfrv. eru til skoðunar í þinginu hvort fjölskylduráð hafi fjallað um það.

Ég tel afar miklvægt til þess að gæta samræmingar í málum sem snerta fjölskylduna að fjölskylduráð fjalli um þau. Það er svo að eitt ráðuneyti getur verið að fjalla um mál sem snertir kannski sparnað, segjum í heilbrigðiskerfinu, sem getur svo komið út sem útgjöld í öðru ráðuneyti eins og í félmrn. eða jafnvel hjá sveitarfélögum. Þegar menn eru að spara undir slíkum formerkjum gerir það illt verra. Ég lít á þetta fjölskylduráð sem aðila sem ætti að gæta samræmingar í þessum efnum og að láta álit sitt í ljós, hvaða áhrif einstök mál sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir og aðgerðir hafa á fjölskyldurnar í landinu, t.d. í skattamálum að því er varðar útfærslu á barnabótum eins og við erum hér að ræða. Þessu vildi ég halda til haga. Aldrei hefur verið leitað til þessa fjölskylduráðs og auðvitað ekki í því máli sem við fjöllum um.

Ríkisstjórnin hefur hrósað sér mjög fyrir það mál sem hér kemur fram um auknar barnabætur. Auðvitað ber að fagna því sem vel er gert í því efni. En ástæða er til þess að halda því til haga að þetta er mál sem er sett fram í tengslum við kjarasamninga sem einn liður í því að greiða fyrir kjarasamningum. Hér á að setja í þetta mál, í auknar barnabætur, 2 milljarða á næstu þremur árum, herra forseti. Það eru töluverðir peningar. En jafnvel eftir þrjú ár þegar framkvæmdin hefur að fullu skilað sér til heimilanna í landinu er heimilin í landinu samt verr stödd að því er barnabætur varðar en var á árinu 1995 þegar þessi ríkisstjórn tók við. Það er allt og sumt sem er að skila sér til heimilanna í landinu í formi aukinna barnabóta og sýnir það okkur fyrst og fremst hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á barnabótum í fimm ára stjórnartíð sinni, barnabótum sem skipta verulegu máli fyrir allar fjölskyldur í landinu. Ísland, eitt fárra ríkja innan OECD, heldur þannig á málum að tekjutengja barnabætur, og það mjög skarpt, herra forseti, vegna þess að tiltölulega fá heimili njóta þess að fá barnabætur. Það er fremur litið á þetta sem félagslega aðstoð við láglaunafólk en sjálfstæðan rétt og framlag sem ætti að tilheyra börnum. Ef við viljum jafna með einhverjum hætti út skattbyrðar, þ.e. varðandi tekjulága hópa og tekjuháa, eigum við að gera það t.d. með fjölþrepa skattkerfi, en við eigum að hafa barnabæturnar og líta til þess að hafa þær í framtíðinni ótekjutengdar þannig að hér sé fyrst og fremst um að ræða rétt hvers og eins barns. Ef við teljum að það eigi að skattleggja, sem ég að sjálfsögðu er hlynnt, þá meira sem meiri hafa tekjurnar, þá eigum við að gera það í gegnum tekjuskattskerfið. En Ísland er sem sagt eitt fárra ríkja innan OECD sem tekjutengir barnabætur.

Þegar ríkisstjórnin kom fram með þessa hækkun á barnabótum sagði hún að hér væri um að ræða þriðjungs hækkun á næstu árum og taldi fram að hér væri verið að hækka sérstaklega til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar um ríflega 8% og auka ráðstöfunartekjurnar sem því nemur á meðan hækkunin nemur 3,7% í hópi tekjulægstu hjóna og sambýlisfólks. Herra forseti. Það er alveg sama hvernig ég reikna þetta út, hverja ég fæ til liðs með mér í að reikna þetta út. Ég get ekki fengið út þá raunhækkun sem verið er að reikna út, herra forseti. Það er aldeilis ómögulegt.

Það hæsta sem ég get komist að því er varðar auknar ráðstöfunartekjur til þeirra sem minnst hafa er einungis hluti af því sem hér hefur verið sett fram af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég hef látið reikna dæmi af hjónum með tvö börn þar sem annað er yngra en sjö ára og útkoman er 0,7% hækkun hjá hjónum í fyrstu tíund --- í útreikningum ríkisstjórnar er þetta sett fram í ákveðnar tíundir og hópunum skipt í það miðað við ráðstöfunartekjur --- en síðan fæ ég út 2,2% hjá hjónum í svokallaðri fimmtu tíund eins og þetta er sett fram hjá ríkisstjórninni. Ég fæ því ekki út þá aukningu á ráðstöfunartekjum sem er verið að setja fram.

Ef við lítum t.d. á barnabætur til tekjulágra hjóna með tvö börn, annað yngra en sjö ára, sem fengu óskertar barnabætur samkvæmt gildandi kerfi, þá hækka þær aðeins um 2.600 kr. á mánuði eftir þrjú ár þegar breytingin á barnabótunum er að fullu komin til framkvæmda. Skýringin er m.a. sú, sem ekki allir átta sig á, herra forseti, að í nýju kerfi fellur niður á móti tæplega 32 þús. kr. viðbótargreiðsla sem þessi tekjulágu hjón fengu áður vegna yngra barnsins. Þess vegna gerir þetta ekki eins mikla raunhækkun og ríkisstjórnin státar sig af.

Síðan, af því að við höfum verið að ræða um ótekjutengdar barnabætur og Framsfl. setti það fram sem meginloforð sitt í kosningabaráttunni að koma á svokölluðum barnakortum með 32 þús. kr. greiðslu til allra barna, eins og það var orðað, til allra barna á kjörtímabilinu, er sú útfærsla í framkvæmdinni sem við gagnrýnum mjög sú að ótekjutengdar barnabætur munu aðeins ná til barna að sjö ára aldri. Framsfl. uppfyllir því loforðið sem hann gaf kjósendum að hálfu og skilur eftir sennilega um 35 þúsund börn á aldrinum 7--16 ára en börn að 16 ára aldri eru á bilinu 65--68 þúsund. Rúmlega 30 þúsund börn upp að sjö ára aldri munu fá ótekjutengdar barnabætur sem nemur 33 þús. kr.

Herra forseti. Aftur til að sýna fram á hvað hér er raunverulega lítið á ferðinni af hálfu ríkisstjórnar. Ef við berum aftur saman árið 1995 þegar ríkisstjórnin tók við þá var ótekjutengdi hlutinn að meðaltali um 40 þús. kr. til allra barna að 16 ára aldri sem var misjafnt miðað við aldur og hjúskaparstöðu. En hér á sem sagt á þremur árum að koma á framkvæmd sem tryggir ótekjutengdar barnabætur til barna að sjö ára aldri og einungis upp að 33 þús. kr. meðan ótekjutengdi hlutinn var hærri, 40 þús. kr. í stað 33 þús. kr. núna samkvæmt þessu frv. og til allra barna að 16 ára aldri áður árið 1995 meðan það gengur aðeins til barna sjö ára að aldri núna.

Síðan vildi ég, herra forseti, halda því til haga að á verðlagi í maí voru barnabætur á árinu 1995 um 5,4 milljarðar kr. en á yfirstandandi ári 3,5 milljarðar. Það er því einungis verið að skila aftur þessum 2 milljörðum á þremur árum sem er þá samsvarandi fjárhæð eftir þrjú ár sem fer í barnabætur af hálfu ríkisvaldsins eins og það var á árinu 1995. Ástæða er til að rifja þetta upp hér, herra forseti.

Ég vil nefna líka, herra forseti, auk þessarar umsagnar sem ég hef getið frá fjölskylduráði, umsagnar sem kom frá Félagi einstæðra foreldra. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Okkur langar til að koma því á framfæri varðandi þetta frv. til laga að það er ekki hliðhollt einstæðum foreldrum né láglaunafólki þessa lands.``

Það er nú það sem ríkisstjórnin hefur helst verið að halda til haga, að þessar breytingar séu sérstaklega hliðhollar láglaunafólki.

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Við teljum að afnema þurfi tekjutengingu á barnabótum. Einnig teljum við tekjuskattsstofn einstæðra foreldra hvað varðar barnabætur vera allt of lágt reiknaðan, þ.e. 645.109 kr. Þessi tekjutengingarmörk eru óréttlát miðað við þau útgjöld sem einstaklingar þurfa að greiða sér til lífsviðurværis. Þar má nefna að húsaleiga er stór hluti útgjalda fólks og húsaleigubæturnar ná ekki að jafna út skerðinguna sem barnabæturnar koma til með að hækka um.``

Síðan segja þeir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Dagvistargjöld munu hækka á næsta ári og þar mun hækkun á barnabótum ekki jafna þann reikningslið.``

Það er ekki meira sem þetta gefur greinilega fyrir marga einstæða foreldra. Síðan segir:

,,Ótekjutengdi hluti barnabótanna nær bara til sjö ára aldurs barns. Athuga þarf að það er kostnaðarsamt að koma barni til manns og það tekur ekki bara sjö ár. Barnabætur eiga að vera ótekjutengdar til 18 ára aldurs, þ.e. þar til börn fá sjálfræði. Persónuafsláttur barna ætti einnig að nýtast foreldrum sem eru með lágar tekjur.``

Herra forseti. Þetta síðasta um persónuafslátt barna höfum við í Samfylkingunni margoft flutt frv. um, þ.e. að það er réttlætismál að leyfa einstæðum foreldrum og tekjulágum fjölskyldum að nýta ónýttan persónuafslátt barna sinna. Síðast þegar ég skoðaði það mál var ónýttur persónuafsláttur um 2--2,5 milljarðar kr. sem er auðvitað miklu minna í tekjutapi hjá ríkissjóði ef út í þetta yrði farið. En hér hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir því að persónuafslátt milli hjóna megi nýta að fullu sem er líka réttlætismál. En á sama tíma horfum við upp á að einstæðir foreldrar sem eðli máls samkvæmt geta ekki nýtt neinn persónuafslátt geta horft upp á ónýttan persónuafslátt barna sinna og mega ekki nýta hann. Þessu vildi ég halda til haga því að það er nefnt hér hjá Félagi einstæðra foreldra.

Eins er það eðlilegt og þarf að fara að skoða það í miklu víðara samhengi hvað sú breyting þýðir sem við beittum okkur fyrir hér fyrir um tveim árum um að hækka sjálfræðisaldurinn í 18 ár. Hvað fylgir því? Ættu t.d. ekki barnabætur að greiðast til 18 ára aldurs barns af því að við höfum með þeirri skilgreiningu þegar við breytum sjálfræðisaldri í 18 ár viðurkennt það sem alþjóðasamþykktir kveða á um? Flestar þjóðir sem við berum okkur saman við miða aldur barns til 18 ára aldurs. Einmitt út á það gengur tillaga sem ég flyt ásamt Margréti Frímannsdóttur, Ögmundi Jónassyni og Jóhanni Ársælssyni, þ.e. að miða ótekjutengdan hluta barnabótanna, þessar 33 þús. kr., við 18 ára aldur en við gerum ráð fyrir að það sé sett inn í lagaákvæði sem hin almenna regla sem taki gildi á árinu 2003, þ.e. á síðasta árinu þegar þessar barnabætur eiga að koma að fullu til framkvæmda, en fram að þeim tíma verði ótekjutengdi hluti barnabótanna, þ.e. á næsta ári og árinu 2002, greiddur með öllum börnum yngri en 16 ára. Þar erum við að feta okkur inn á þá braut sem þær þjóðir hafa gert sem við berum okkur helst saman við, þ.e. að hafa barnabætur ótekjutengdar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál. Þetta er tilraun sem við í minni hlutanum gerum til að gera barnabætur að raunverulegum barnabótum sem gagnast öllum fjölskyldum allra barna að 16 ára aldri næstu tvö árin og síðan verði meginreglan sú að barnabætur greiðist til 18 ára aldurs.