Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 19:00:14 (3240)

2000-12-12 19:00:14# 126. lþ. 46.13 fundur 194. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# (GSM-leyfi) frv. 152/2000, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[19:00]

Frsm. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta samgn. sem er að finna á þskj. 455. Það mál sem við ræðum hér er ekki stórt eða mikið að burðum en þar er kveðið á um að veita eigi leyfi til þriðja rekstrarleyfishafa á GSM 900 MHz þjónustu.

Virðulegi forseti. Ég tek það fram í upphafi að minni hlutinn er sammála því að veita skuli þetta þriðja leyfi en gerir athugasemdir við þær aðferðir sem ætlunin er að nota við úthlutun á því leyfi. Geri ég nú grein fyrir því áliti minni hlutans.

Minni hlutinn telur að í ljósi þess að einungis er pláss fyrir eitt leyfi til viðbótar þeim sem fyrir eru (Landssíminn, TAL) á því tíðnisviði miðað við núverandi tækni eigi að úthluta því á annan hátt en tillögur meiri hlutans gera ráð fyrir.

Í ljósi þess að leyfi á 900 MHz tíðnisviðinu er verðmætt og afhending þess er úthlutun á takmörkuðum gæðum telur minni hlutinn að réttara hefði verið að bjóða leyfið út í stað þess að afhenda það einum umsækjanda á fyrir fram ákveðnu verði. Minni hlutinn vill taka fram að það er erfitt fyrir stjórnvöld að meta þetta leyfi til verðs eins og lagt er til í tillögum meiri hlutans, auk þess sem erfitt verður fyrir stjórnvöld að gera upp á milli umsækjenda sæki fleiri en einn um leyfið.

Miðað við þá tækni sem nú þekkist er mun ódýrara að koma upp dreifikerfi á 900 MHz tíðnisviðinu en t.d. 1800 sökum þess að til þess að koma upp dreifikerfi á því tíðnisviði þarf mun fleiri stöðvar. Það er því ljóst að úthlutun síðasta leyfisins á þessu tíðnisviði er úthlutun á verulegum verðmætum miðað við þá tækni sem nú þekkist. Hvort framtíðin ber það í skauti sér að mögulegt verði að úthluta fleiri leyfum á þessu tíðnisviði er atriði sem er ekki hægt að taka afstöðu til nú og því ekki raunhæft að bera það fyrir sig í þessari umræðu.

Að öllu þessu samandregnu er það skoðun minni hlutans að í tilvikum eins og þessu þar sem verið er að úthluta takmörkuðum gæðum sé eðlilegast að úthluta þeim á eins hlutlægan hátt og kostur er. Þá er það skoðun minni hlutans að markaðurinn sé færari um að meta þetta leyfi til raunvirðis en stjórnvöld. Því má spyrja hvort stjórnvöld séu með þessari ákvörðun að afhenda opinbert leyfi á verði sem er langt undir því sem markaðurinn er tilbúinn að borga. Svar við þeirri spurningu fæst ekki að þessu sinni verði hugmyndir meiri hlutans að veruleika því í ákvæðinu er gert ráð fyrir föstu verði.

Það er skoðun minni hlutans að þau leyfi sem hafa þegar verið veitt skapi ekki fordæmi fyrir það leyfi sem stjórnvöld hyggjast nú veita. Aðstæður þá voru aðrar, auk þess sem leiða má líkur að því að leyfin hafi verið allt of ódýr ef mið er tekið af þeim tekjum sem nýting þessara leyfa skilar þeim fyrirtækjum sem þau hafa. Það er því skoðun minni hlutans að vafasamar aðgerðir fortíðar eigi ekki að vera fordæmi fyrir nútíð og framtíð.

Þá má enn fremur benda á að þau fyrirtæki sem hafa nú þessi leyfi eru vissulega frumkvöðlar á sínu sviði. Sá er hér stendur er hiklaust þeirrar skoðunar að frumkvöðlar eigi að fá að njóta þess að vera fyrstir á svæðið. Það eru auk þess enn frekari rök fyrir því að þeir sem síðar koma greiði ekki sama verð og þeir sem brjóta ísinn á þessu sviði.

Þá er vert að benda á að í þeim tillögum sem svokölluð auðlindanefnd sendi nýlega frá sér er lagt til að meginreglan verði útboð þegar að því kemur að úthluta takmörkuðum verðmætum. Minni hlutinn tekur undir þá grundvallarhugmynd.

Þá má enn fremur benda á að í leyfisskilmálunum, sem fylgja frumvarpinu, kemur fram að leyfishafi skuli innan ákveðins tíma hafa komið upp dreifikerfi sem nær til u.þ.b. 80% landsmanna. Ef svæðið frá Hvolsvelli að Borgarnesi er tekið, auk Vestmannaeyja og Akureyrar, verður þessu markmiði auðveldlega náð. Hins vegar liggur fyrir að nú þegar eru tvö dreifikerfi á þessum svæðum, þ.e. Landssíminn og TAL, og því má velta því fyrir sér hvort ekki væri rétt að gefa nýju fyrirtæki möguleika á því að byggja sig upp með svokölluðum reikisamningum við hin símafélögin í stað þess að gera ónauðsynlega fjárfestingu að skilyrði. Þá má enn fremur velta fyrir sér þeirri spurningu hvort ekki ætti frekar að gefa nýju félagi kost á að byggja upp dreifikerfi á svæðum þar sem ekkert kerfi er fyrir í stað þess að binda skilyrðin við að byggja upp kerfi fyrir 80% landsmanna þar sem tvö kerfi eru fyrir. Það er spurning hvort réttlætanlegt sé að gera kröfu um jafnónauðsynlega fjárfestingu í ljósi veruleikans en tvö kerfi eru fyrir.

Undir þetta ritar sá er hér stendur auk hv. þm. Kristjáns L. Möllers.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir þær meginröksemdir sem minni hlutinn hefur í þessu máli og ég er sjálfur sannfærður um að mun fleiri hafa þá skoðun. Það er eftirtektarvert að lesa grein eftir hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur sl. föstudag í Morgunblaðinu en þar tekur hún undir að uppboðsleiðin sé mun vænlegri leið en aðrar leiðir sem koma hugsanlega til álita.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir þeim sjónarmiðum sem gera það að verkum að við treystum okkur ekki til þess að standa að áliti minni hlutans. Við teljum að nær hefði verið að bjóða leyfið upp þar sem um veruleg verðmæti og takmörkuð er að ræða en munum þess í stað sitja hjá við afgreiðslu frv. þrátt fyrir að við séum því fylgjandi að það pláss sem enn er eftir á 900 MHz tíðnisviðinu verði nýtt.

Virðulegi forseti. Ég hef kynnt minnihlutaálit samgn.