Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 10:57:14 (3244)

2000-12-13 10:57:14# 126. lþ. 47.22 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[10:57]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Í lokahrinu kjarasamninganna í fyrravor, samninganna milli Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins, kom upp sú hugmynd að verja töluverðum fjármunum til starfsmenntunar fyrir ófaglært verkafólk og það varð samkomulag við félmrn. og Samtök atvinnulífsins og Flóabandalagið og síðar Verkamannasambandið að taka þessa peninga úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir því en bera þarf fram sérstakt frv., sem ég er hér með í höndunum, til þess að þetta öðlist lagastoð. Ég veit ekki betur en að allsherjarsamkomulag sé um þetta mál.

Hugmyndin er að þetta átak í fræðslumálum ófaglærðra standi í þrjú ár, þ.e. 2001--2003. Alls á að verja 200 millj. í þetta. Fræðslusjóðir eru tveir og eiga álíka margir aðild að þeim. En það er ljóst að kostnaður við fræðslustarfið er af landfræðilegum ástæðum meiri hjá fræðslusjóði Samtaka atvinnulífsins og Verkamannasambandinu eða Landsmennt og því var honum ætlað heldur meira fé en fræðslusjóði Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins sem heitir Starfsafl.

Þannig er gert ráð fyrir að á árinu 2001 renni 104 millj. kr. til sjóðanna, þ.e. 50 millj. kr. til Starfsafls og 54 millj. kr. til Landsmenntar. 53 millj. kr. árið 2002, þ.e. 25 millj. kr. til Starfsafls en 28 millj. kr. til Landsmenntar og 43 millj. kr. árið 2003, 15 millj. kr. til Starfsafls og 28 millj. kr. til Landsmenntar.

Á móti þessari greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði greiða stéttarfélögin sem mynda Flóabandalagið og stóðu að samkomulaginu 10 millj. á ári til verkefnisins og stéttarfélögin í Verkamannasambandinu greiða einnig 10 millj. í sinn sjóð. Þessu frv. er sem sagt ætlað að tryggja þessu fyrirkomulagi lagastoð.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málið sent hv. félmn. til athugunar. Ég harma að þetta skuli vera svo seint fram komið og lítill tími eftir en þar sem samkomulag er um málið að öðru leyti vonast ég til að það nái afgreiðslu fyrir jólahlé.