Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 11:01:12 (3245)

2000-12-13 11:01:12# 126. lþ. 47.22 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[11:01]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að gagnrýna það að hæstv. forseti skuli taka síðustu mál á fyrri fundinum fram fyrir önnur, 22. málið um atvinnuleysistryggingar sem hér hefur verið mælt fyrir og tryggingagjaldið, bæði mjög seint fram komin og tryggingagjaldið svo seint að leita þurfti afbrigða til að taka mætti það á dagskrá. Þessa dagana er afskaplega mikið að gera hjá þingmönnum. Enn þá er verið að starfa í nefndum þrátt fyrir að yfirleitt sé gert ráð fyrir að nefndastörfum sé lokið á síðustu áformuðu dögum þingsins. Hér er verið að mæla fyrir málum sem eiga að fara til nefndar. Látum það vera þar sem ríkisstjórnin er greinilega búin að setja Alþingi í uppnám með því að halda okkur hér á róli til að koma með ný mál inn, bankamál o.fl. En það getur verið eitthvað í þessum málum sem við viljum koma á framfæri og þingmenn höfðu hugsað sér að nota tækifærið nú meðan önnur mál væru tekin fyrir að skoða þessi mál og það er mjög óþægilegt að mæta í atkvæðagreiðslu og fá þá að vita að síðustu málin séu fyrst á dagskrá.

Vissulega er það svo að samstaða er um að setja peninga í starfsmenntamálin og stjórnarandstaðan hefur flutt tillögur um það við afgreiðslu fjárlaga. En ríkisstjórnin tekur svo seint við sér með þau brýnu mál að verið er að flytja frumvörp um þegar komið er löngu fram yfir þann tíma að ný frumvörp ættu að koma fram. Ég spyr hvort ekki megi hinkra með framhald umræðu um þetta mál og bíða með tryggingagjaldið þar til síðar á fundinum þannig að örlítið tækifæri gefist fyrir þá sem vinna með þessi mál að skoða þau áður en umræða fer fram.