Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 11:04:10 (3247)

2000-12-13 11:04:10# 126. lþ. 47.22 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[11:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það ótrúlegt sleifarlag af hálfu hæstv. félmrh. að koma með þetta mál núna svo seint sem raun ber vitni þegar röksemdin fyrir því er samkomulag sem gert var á vinnumarkaðnum sl. vor. Það er meira en hálft ár um liðið. Samt kemur ráðuneytið ekki þessu frv. frá sér sem er ein grein upp á fjórar línur og gildistökuákvæði í 2. gr. fyrr en rétt fyrir jólaleyfi eftir að nefndastörfum til að mynda samkvæmt starfsáætlun Alþingis átti að vera lokið. Ég leyfi mér að spyrja, hvers lags er þetta? Gleymdist þetta í ráðuneytinu? (Félmrh.: Þetta er sleifarlag.) Já, þetta er sleifarlag, það er víst alveg á hreinu með það. Það er ekkert annað fyrir hæstv. félmrh. að gera en að skammast sín fyrir þetta og með ólíkindum satt best að segja.

Það sem verra er þó, herra forseti, er að það hefði verið eðlilegt í tengslum við þetta mál að fara í svolitla grundvallarumræðu um hvort það er heppilegt fyrirkomulag sem þarna er verið að koma á. Ég leyfi mér að hafa uppi ákveðnar efasemdir um það. Það er alveg ljóst að málefnið er hið þarfasta. Þess vegna eru menn settir í svo ankannalega stöðu að fara að ræða hlutina á þeim nótum að einhver hætta væri á þeim misskilningi að menn væru að leggja stein í götu þessa verkefnis að setja aukinn kraft í fræðslumál og gera átak í fræðslumálum ófaglærðs verkafólks. Það er auðvitað alveg hið mesta framfaramál og er sjálfsagt að stuðla að því og málefnið er mjög þarft.

En samt er ýmislegt við þetta að athuga eins og málið ber hér að. Fyrir það fyrsta eru það þessi vinnubrögð sem við þurfum ekki að dæma meira um, þau dæma sig algerlega sjálf. Hæstv. ráðherra er búinn að játa á sig skömmina.

Í öðru lagi gerast þarna hlutir sem eru býsna umhugsunarverðir en því miður alls ekki einsdæmi. Það er að samið er við einhvern tiltekinn hluta vinnumarkaðarins og menn taka sér þar vald til að ákvarða hluti sem varða allan vinnumarkaðinn. Það mætti margt um þetta segja og kannski er ekki endilega ástæða til að ræða það á mjög neikvæðum nótum af því að hér á í hlut mál sem ég býst ekki við að sé mjög umdeilt, og þó. Menn geta vissulega sett spurningarmerki við það að fjármunum úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem er að sjálfsögðu tryggingasjóður alls vinnumarkaðarins sé varið í verkefni af þessu tagi sem varðar hluta aðildarfélaganna og að hluti vinnumarkaðarins skuli taka sér í raun og veru vald með þessum hætti til að ganga frá málum, það er málefni sem menn þurfa að fara að setja ákveðin spurningarmerki við og þurfa að fara að átta sig á hvort kann góðri lukku að stýra.

Við heyrum það oft t.d. notað sem röksemd að í rauninni sé búið að ganga frá forsendum kjarasamninga fyrir allan vinnumarkaðinn með því að einhver hluti hans semur á tilteknum nótum. Mjög oft er sagt að ekki aðeins hafi Flóabandalagssamningurinn neglt niður það mál sem hér er til umfjöllunar og væntanlega eru menn settir í erfiða stöðu með því að fara að hrófla við því, heldur hafi hann meira og minna ákveðið kjarasamningalínuna fyrir hönd alls vinnumarkaðarins þannig að aðrir aðilar hafi engan sjálfstæðan samningsrétt. Ég held að menn verði verulega að fara að spyrja sig spurninga í þessu sambandi. Það kemur að því að þetta mun valda úlfúð, þetta mun valda því að upp úr sýður í samskiptum þessara aðila. Einnig er Alþingi aftur og aftur sett í þær aðstæður að standa frammi fyrir meira og minna gerðum hlutum vegna þess að frá þeim hafi verið gengið, ekki fyrir hönd allra aðila vinnumarkaðarins í heild að samfloti eða þannig að aðrir hafi verið kallaðir að borðinu og spurt: Geta menn stutt þessa ráðstöfun? Eru aðrir aðilar sem eiga hagsmuna að gæta vegna stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs? Eru þeir sáttir við þessa ráðstöfun? Það kemur ekki fram í þessu máli að svo hafi verið gert. Var kallað á önnur sérsambönd innan Alþýðusambandsins og aðra sjálfstæða hópa á almenna vinnumarkaðnum og þeir spurðir álits á þessu? Var það gert? (Félmrh.: Nei, þeir mótmæltu ekki.) Nei, þeir mótmæltu ekki, segir hæstv. félmrh. í frammíkalli. Þar með er þögn sama og samþykki í þessu tilviki jafnvel þó að þetta sé afgreitt í lok samningalotu, kannski á næturfundum þar sem menn eru einangraðir hjá sáttasemjara. Ef ekki heyrast mótmæli úr þjóðfélaginu, þá er það tekið sem samþykki.

Í öðru lagi, herra forseti, vil ég sérstaklega ræða um það fyrirkomulag að sækja þessa fjármuni í Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég hef áhyggjur af því og ég mótmæli því að aftur og aftur sé verið að hengja á Atvinnuleysistryggingasjóð pinkla sem í rauninni orkar verulega tvímælis að eigi að greiðast þaðan. Ég held að menn ættu að varast að taka markaðan tekjustofn atvinnuleysistrygginganna og seilast í hann til að standa straum af ýmsum útjöldum. Hvar endar sú þróun? Hún endar eins og við höfum séð í mörgum öðrum tilvikum þar sem tekna er sérstaklega aflað í sérmerktum tilgangi, t.d. framkvæmdasjóðirnir, áður en við er litið er stór hluti þeirra fjármuna farinn að fara í annað en til stóð í upphafi, til að standa straum af ýmiss konar rekstri og öðru slíku. Þeirrar tilhneigingar hefur gætt hjá Atvinnuleysistryggingasjóði að hann væri farinn að standa straum af félagslegum verkefnum og ýmiss konar rekstri sem hann á að mínu mati ekki að gera. Hættan er sú eins og við núverandi aðstæður að menn seilist til þess að ganga lengra og lengra meðan Atvinnuleysistryggingasjóður hefur borð fyrir báru. Það hefur hann vissulega um þessar mundir því að atvinnuleysi er hverfandi þó að það sé vissulega til staðar. Sjóðurinn hefur verið að byggjast upp á undanförnum árum en menn hafa líka takmarkað tekjur hans. Önnur viðfangsefni hafa verið leyst þannig að farið er inn á þennan tekjustofn, tryggingagjaldið eða þann hluta þess sem á að renna til Atvinnuleysistryggingasjóðs, og er nærtækast að minna á fæðingarorlofið, ágætt framfaramál, en það var samt seilst til þess að grípa inn í tekjustofn sem á að ganga til Atvinnuleysistryggingasjóðs og annarra þátta sem tryggingagjaldið stendur undir.

Atvinnuleysistryggingasjóður stendur vissulega vel og ætli það séu ekki í honum núna um 6 milljarðar kr. eða svo. Við hjá félmn. könnuðum það fyrir nokkru hvernig hann væri á vegi staddur og spurðumst m.a. líka fyrir um ávöxtun þess fjár sem þar er inni því auðvitað er ástæða til þess að gæta að því að menn sofni ekki á verðinum þó að atvinnuleysi sé lítið og sjóðurinn eigi dálítið í handraðanum, þá geta þeir hlutir verið fljótir að breytast eins og kunnugt er.

Það kom sér ákaflega vel á árunum upp úr 1990 þegar atvinnuleysi fór vaxandi á nýjan leik að nokkrir fjármunir voru þá í Atvinnuleysistryggingasjóði en þeir voru líka fljótir að fara. Menn urðu að grípa til þess að færa meira fé í sjóðinn og hækka tekjustofn hans. Ég vara við því að menn sýni af sér mikið andvaraleysi í málefnum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Því miður er margt sem teiknar til þess að útgjöld hans gætu farið að aukast á nýjan leik og staðbundið a.m.k. er við verulegan vanda í atvinnumálum að stríða. Það er eins og menn gleymi því að þó að hér sé spenna á vinnumarkaði höfuðborgarsvæðisins, þá geta þeir hlutir verið fljótir að breytast. Það er auðvitað fljótt að telja þegar staðbundnar aðstæður valda fjöldaatvinnuleysi eins og ástandið í Vestmannaeyjum hljómar núna upp á, eins og ástandið á ýmsum stöðum á landsbyggðinni þar sem menn hafa orðið fyrir áföllum í atvinnumálum og stjórnvöld hafa setið ofan á lúkunum á sér mánuðum og missirum saman og ekki gert nokkurn skapaðan hlut þar til úrlausnar. Mætti þar nefna staði eins og Ólafsfjörð og Hrísey og er auðvitað með miklum endemum sá aumingjagangur allur sem stjórnvöld hafa sýnt af sér í þeim efnum, gapandi uppi með stórar yfirlýsingar um að nú yrðu flutt verkefni úr opinberu stjórnsýslunni og/eða öðrum úrræðum beitt í gegnum Byggðastofnun eða aðra slíka aðila. Síðan hafa liðið mánuðir, missiri og ár og ekkert hefur ræst af því sem stjórnvöld hafa lofað, ekki neitt. Þannig hefur t.d. hin ágæta Byggðastofnun eða stjórn Byggðastofnunar sýnt af sér í framgöngu sinni alveg ótrúlega mismunun hvað varðar það að taka ástand af sambærilegum toga til sambærilegrar meðhöndlunar og væri saga til næsta bæjar, herra forseti, ef farið væri ofan í saumana á því t.d.

Hvað hefur Byggðastofnun gert í sambandi við vanda Ólafsfjarðar og Hríseyjar sem er sambærilegt við það sem sumir aðrir staðir hafa fengið frá þeirri ágætu stofnun? Ég held að það ætti kannski aðeins að skoða það, talandi um jafnræðisreglu í stjórnsýslunni og aðra slíka hluti. Það vill svo vel til að ég horfi framan í eins og eitt andlit sem sjálfsagt tekur þetta til sín en eins og kunnugt er er stjórn Byggðastofnunar að stórum hluta mönnuð þingmönnum stjórnarflokkanna. Liggur við að þeir gætu sleppt því að halda fundi í stjórn Byggðastofnunar og í staðinn tekið þetta fyrir í þingflokkum stjórnarliðsins. Síðan eru tveir ágætlega menntaðir menn, varaþingmenn Samfylkingarinnar þarna líka í stjórn og í góðu sambandi við almættið. En það hefur samt ekki komið í veg fyrir það að mér virðist að taka þurfi það til rækilegrar skoðunar hvernig þetta batterí hefur gengið fram á undanförnum árum.

Ég nefni þetta, herra forseti, í pínulitlu framhjáhlaupi þar sem við erum að ræða um málefni Atvinnuleysistryggingasjóðs og stöðu atvinnumála sums staðar á landsbyggðinni sem er slæm og má ekki gleyma þó að menn huggi sig við meðaltöl yfir landið sem sýna að atvinnuleysi er lítið mælt á landsmælikvarða.

[11:15]

En áföll í atvinnulífinu, jafnvel hlutir eins og miklar ógæftir og/eða aflabrestur á vetrarvertíðinni, geta skyndilega þýtt umtalsverð útgjöld úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þá eru aðstæður hans fljótar að breytast, að hann sé aflögufær og hafi mikið borð fyrir báru til verkefna af þessu tagi. Þess vegna vara ég við þeirri þróun, herra forseti, að halda að menn eigi þarna ótæmandi gullnámu sem hægt sé að grípa til.

Maður spyr sig auðvitað að því, herra forseti, á hvaða braut forsvarsmenn verkalýðsfélaga eru þegar þeir hneigjast til að sækja þangað peninga til að fjármagna þörf málefni. Ég vil leggja áherslu á það aftur að deilan stendur ekki um að þetta er hið þarfasta viðfangsefni en hefði það ekki einfaldlega átt að fjármagnast með framlögum á fjárlögum? Er þetta ekki hluti af framlögum til menntamála? Hvort heldur litið er á þetta í menningarlegu, menntunarlegu eða félagslegu tilliti, herra forseti, þá er þetta eitt af þeim verkefnunum sem ríkið ætti að leggja til fé af tekjum sínum en ekki fara inn á þessa braut.

Verkalýðsfélögin leggja þarna vissulega sjálf sitt af mörkum, talsverðar fjárhæðir. Þegar tillit er tekið til þess að þetta eru þau verkalýðsfélög sem stóðu að Flóabandalagssamningunum annars vegar og Verkamannasambandið sjálft hins vegar þá munar auðvitað um þær fjárhæðir sem þarna eru lagðar fram af þeirra hálfu. Aðalgagnrýni mín er sú, herra forseti, að ég tel að þetta fjármagn ætti í raun að koma sem framlög frá ríkinu með fjárlögum. Ég vara sérstaklega við því að menn fari sífellt lengra inn á þessa braut, að hengja verkefni af þessu tagi á Atvinnuleysistryggingasjóð.