Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 11:17:58 (3248)

2000-12-13 11:17:58# 126. lþ. 47.22 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[11:17]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að það kemur mér á óvart að sjá allt í einu þetta frv. komið fram. Við erum að sjá það í fyrsta skipti núna, bara dreift frammi á bekknum. Þannig hefur ekki gefist mikill tími til að fara yfir það en ég vildi gjarnan taka undir margt af því sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon sagði áðan.

Fyrir það fyrsta er Atvinnuleysistryggingasjóður markaður tekjustofn. Þetta minnir mig á það þegar fæðingarorlof var greitt úr þessum sjóði hér áður fyrr. Það þótti alls ekki til fyrirmyndar og því var breytt. Nú er reynt að seilast í þessa sjóði. Í grg. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Þá gerðu félagsmálaráðherra og forvígismenn atvinnurekenda samkomulag um að í stað þess að greitt yrði í fræðslusjóði sem stæðu undir þessu átaki með álagsprósentu á laun, líkt og tíðkast hefur hjá fjölmörgum stéttum, rynni ákveðið fjármagn á árunum 2001--2003, alls 200 millj. kr., úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fræðslusjóðanna.``

Ég set spurningarmerki við það hvort þetta eigi að greiðast úr þessum sjóði. Atvinnuleysistryggingasjóður á að vera til mögru áranna. Við vitum ekki hvenær þau skella á og það þarf ekki annað en utanaðkomandi áhrif til þess að svo verði. Þetta er auðvitað sjóður sem allur vinnumarkaðurinn greiðir í.

Ég tek undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að fræðslumál ófaglærðra eru afar brýn þannig að þetta snýst ekki um að vera sammála því eða ekki. Spurningin er hvaðan eigi að taka peningana. Ég tek undir þá skoðun að eðlilegt hefði verið að í menntamálunum væri tekið frá fjármagn til slíkrar starfsemi eða jafnvel eins og tíðkast hjá öðrum stéttarfélögum, að það sé greitt af ákveðinni prósentu. Þannig er það t.d. hjá öllum bandalögum háskólamanna, kennara og annarra. Af hverju á það ekki vera svo með hin almennu stéttarfélög? Ég bara spyr. Af hverju er verið að taka þetta úr þessum sjóði?

Mér finnst líka rétt að það komi fram að öllu nefndastarfi er í raun lokið. Hins vegar verður að kalla til aukafundar út af þessu máli. Ég býst ekki við að fulltrúar stjórnarandstöðunnar verði á móti því en þessi vinnubrögð ganga náttúrlega ekki. Ég vil bara árétta það.