Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 12:00:19 (3258)

2000-12-13 12:00:19# 126. lþ. 47.22 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[12:00]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það þarf auðvitað ekki að hafa mörg orð um það að við leysum ekki málið í þessum sal. En ég var að segja að við gætum haft áhrif á það til þess að þróa það til betri vegar með því að leggja ákveðnar áherslur í þingsölum á þetta mikilvæga mál.

Það sem ég fæ ekki út úr hv. fyrrv. skólameistara er hvort hann telji ekki eðlilegt að gefa starfsmenntuninni, ekki síst starfsmenntun ófaglærðra, það vægi í þjóðfélaginu að þetta verði þá hluti af menntakerfinu. Það verði sjálfsagt og eðlilegt að bjóða ófaglærðum reglulega upp á starfsmenntun sem er þá fjármögnuð bæði af atvinnurekendum og hinu opinbera. Ekki má setja þá pinkla á ófaglærða vegna þess að þeir geta ekki staðið undir því með þeim kjörum sem þeir hafa og á málum sé haldið með þeim hætti frekar en verið sé með nokkuð sérkennilegum hætti að setja þetta inn í Atvinnuleysistryggingasjóð þar sem ekkert skipulag er á málum. Alla heildarsýn og stefnu vantar í þessum málum og að kortleggja þann vanda sem við höfum í þessu efni, þ.e. hve margir eru í þörf fyrir starfsmenntun eða endurmenntun í hópi ófaglærðra. Ég hygg að það sé gífurlega stór hópur, miklu meiri fjöldi en okkur nokkru sinni órar fyrir. Mér býður svo í grun að ef það yrði kortlagt kæmi í ljós að verulega stór hluti ófaglærðra eru konur og fatlaðir sem á hefur hallað á vinnumarkaðinum. Sérstakt átak þarf að gera í að bjóða upp á endurmenntun t.d. konum sem hafa sinnt heimilisstörfum gegnum árin en eru kannski komnar út á vinnumarkaðinn. Okkur vantar alla heildarsýn í þennan málaflokk, okkur vantar að setja meira fjármagn í þetta með eðlilegum hætti og gera þetta að hluta af menntastefnu okkar líkt og er hjá öðrum þjóðum sem leggja gífurlega mikla áherslu á starfsmenntun og setja til þess það fjármagn sem þarf til að taka á þessum mikilvæga þætti í vinnumarkaðsmálum.