Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 12:02:37 (3259)

2000-12-13 12:02:37# 126. lþ. 47.22 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[12:02]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég held ég verði aðeins að leiðrétta. Mér fannst gæta misskilnings í máli hv. þm. um að innan Atvinnuleysistryggingasjóðs væri unnið óskipulega og ómarkvisst að þessu. Það er svo að starfsstöðvar Vinnumálastofnunar eru í nánu samstarfi við framhaldsskóla, fræðslumiðstöðvar og aðra slíka og beina fólki inn á þann vettvang eftir því sem við á hverju sinni. (Gripið fram í: Atvinnulausa?) Með atvinnulausa, það er það sem við erum að tala um. (Gripið fram í.) Já.

Hins vegar af því að hv. þm. kallar eftir afstöðu minni til starfsmennta þá hefur það komið fram bæði hér og áður í ræðum á Alþingi. Meðal annars höfðum við þróað einar 70 nýjar starfsmenntabrautir við minn skóla, ýmist langar eða stuttar eftir atvikum, í samstarfi við atvinnulíf á Suðurnesjum með aðstoð fólks af atvinnuleysisskrá sem var ráðið til að aðstoða við þessa þróun. En þær náðu því miður ekki fram að ganga, m.a. vegna viðbragða frá atvinnulífinu. En það er í rauninni allt annað mál sem tengist ekki þessu frv. Það er miklu stærra mál og er ég reiðubúinn að eiga einhvern tíma orðastað um það við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.