Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 12:04:13 (3260)

2000-12-13 12:04:13# 126. lþ. 47.22 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, GAK
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[12:04]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér erum við að ræða um að færa fé úr Atvinnuleysistryggingasjóði, að vísu í mjög þarft verkefni sem er þriggja ára átak í fræðslumálum ófaglærðra og um það mun hafa verið gert samkomulag í kjarasamningum.

Síðan segir í athugasemdum með frv. að félmrh. og forvígismenn atvinnulífsins hafi gert samkomulag um að í stað þess að greitt yrði í fræðslusjóðinn, sem stæði undir þessu átaki með álagsprósentu á laun líkt og tíðkast hefur hjá fjölmörgum stéttum, yrði sótt um að fá fé úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Hér er verið að gefa ákveðið fordæmi. Sú spurning hlýtur að vakna hvort fjölmörg samtök launamanna, m.a. sjómannasamtökin sem hafa á undanförnum árum verið með áherslur um það í kjarasamningum að standa fyrir endurmenntun og símenntun síns fólks en ekki náð því fram --- hvort þetta fordæmi hljóti ekki að gefa tilefni til þess að í næstu kjarasamningum verði samið um þær áherslur sem menn hafa viljað bjóða þessum stéttum til endurmenntunar og starfsnáms enda verði féð sótt í Atvinnuleysistryggingasjóð.

Eigi fæ ég séð hvernig mönnum verði mikið mismunað í þeim efnum að þessu fordæmi gefnu. Ég ætla samt að taka fram til að það valdi ekki misskilningi að ég tel að hér sé gott mál á ferðinni og ástæðulaust annað en að styðja það að það geti gengið eftir. En mér finnst að menn þurfi aðeins að líta til þess í heild sinni hvernig stefnumótun verður í þessum málum. Varla trúi ég því að stéttir sem árum saman hafa reynt að koma fyrir starfsmenntun í kjarasamningum sínum eða í samningum við atvinnurekendur verði settar á einhvern annan bekk eftir að þetta hefur verið gert með þessum hætti, að þeim verði neitað um að fara svipaða leið. Þetta hlýtur því að gefa fordæmi til að menn sækist eftir að fá fé úr Atvinnuleysistryggingasjóði með svipuðu fordæmi og hér er gert gagnvart tvennum samtökum, Flóabandalaginu og Verkamannasambandinu.

Þetta vildi ég láta koma fram vegna þess að það getur varla annað verið en að önnur samtök launamanna, jafnvel einstök stéttarfélög, sem eru ekki í neinu sérstöku sambandi, líti til þessarar lagasetningar sem fordæmis, sem er eðlilegt því að ég tel ekki að mönnum geti neitt verið mismunað í sambandi við slíkan rétt ef hann er á annað borð veittur úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem er sameiginlegur sjóður. Þetta vildi ég láta koma fram og tel rétt að menn hafi þetta í huga og skoði m.a. þegar málið fer til nefndar.