Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 12:08:26 (3261)

2000-12-13 12:08:26# 126. lþ. 47.22 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[12:08]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég fagna því frumkvæði sem kom fram hjá aðilum vinnumarkaðarins að taka þetta mál fyrir á þann hátt sem þeir gerðu. Ákvörðunarvaldið á endanlegri útfærslu er auðvitað hjá Alþingi. Það er því ekki rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði að menn væru að koma hér að afgreiddu máli. Það er Alþingi sem afgreiðir þetta mál endanlega.

Þörfin fyrir aukið fjármagn til starfsmenntunar ófaglærðra er tvímælalaust fyrir hendi. Ég held að við getum verið sammála um það og ekki þurfi að deila um það. Stéttarfélögunum hefur verið treyst til að taka þátt í þessari starfsmenntun. Ég nefni Félagsmálaskóla alþýðu og aðra starfsemi sem er á vegum stéttarfélaganna og hefur unnið stórmikið gagn að mínu mati.

Starfsmenntun gerir eintaklingana hæfari hvort sem þeir eru atvinnulausir eða ekki og þeir verða síður atvinnulausir. Starfsmenntunin gerir líka einstaklingana að betri vinnukrafti fyrir atvinnulífið og styrkir atvinnulífið í heild. Ég tel því að það sé ekkert fjarstætt að Atvinnuleysistryggingasjóður komi að slíku verkefni. Ef bankamenn t.d. eða Sjómannasambandið óska eftir einhverju hliðstæðu þá tel ég að það sé alveg einboðið að skoða það í kjarasamningum. Ég vek athygli á því að stéttarfélögin leggja líka peninga á móti í þetta verkefni.

Atvinnulífið greiðir tryggingagjald. Hluti af því tryggingagjaldi fjármagnar Atvinnuleysistryggingasjóð. Atvinnurekendur gætu knúið á um lækkun tryggingagjaldsins í ljósi þess að atvinnuleysi hefur verið nær ekkert að undanförnu en það hafa forsvarsmenn atvinnulífsins sem betur fer ekki gert. Þeir hafa fallist á að nota peningana með nokkuð öðrum hætti enda er Atvinnuleysistryggingasjóður mjög gildur og hefur mikið borð fyrir báru.

Auðvitað er um viðbótarpeninga í starfsmenntunina að ræða sem við erum að tala um hér til viðbótar við allt það sem áður hefur verið og ákveðið hefur verið á fyrri árum. Vissulega verður reynt að fylgjast með því frá ráðuneytisins hálfu að þessir peningar komi að gagni. Atvinnuleysistryggingasjóður er mjög öflugur eins og stendur og menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af honum, jafnvel þó að hér kæmi atvinnuleysi eins og það hefur mest orðið á undanförnum áratugum, þá á Atvinnuleysistryggingasjóður prýðilega fyrir því. Síðast en ekki síst starfar Atvinnuleysistryggingasjóður með bakábyrgð ríkissjóðs og ef svo illa færi að atvinnuleysi yrði það geigvænlegt að Atvinnuleysistryggingasjóður dygði ekki eða það sem í honum væri þá mundi ríkissjóður neyðast til að koma þar til hjálpar.