Landmælingar og kortagerð

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 12:45:41 (3270)

2000-12-13 12:45:41# 126. lþ. 47.12 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv. 171/2000, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[12:45]

Frsm. minni hluta umhvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst um stjórn stofnunarinnar. Það er ekkert sem bannar forstjóranum að kalla menn sér til ráðuneytis. Hins vegar er gert ráð fyrir því að í kringum 500 þús. kr. sparist vegna þess að ekki sé lengur stjórn til staðar. Hann hefur þá alla vega ekki fjármuni til að greiða fyrir kostnað vegna stjórnarmanna. Ég tel að stjórn eða ráðgjafahópur sem hafður er yfir stofnun eins og þessari þurfi að hafa formlega stöðu og það verði ekki bærilegur bragur á því að forstjórinn kalli menn sér til ráðuneytis þó að það gæti orðið niðurstaðan. Ég lít svo á að verið sé að kveðja þetta fyrirkomulag, a.m.k. um stundarsakir, við að stýra stofnuninni. Ég tel það miður og finnst það hafa komið mjög skýrt fram að þessi stjórn hafi verið afar gagnleg og staðið sig vel. Ég tel ekki tímabært að leggja hana niður núna hvað sem síðar verður.

Hvað varðar innheimtu á gjöldum þá er það rétt að ekki er ágreiningur um þá hluti. Ég tel samt fulla ástæðu til þess að nefna hana sérstaklega. Áhyggjuefnið er að þarna standi menn ekki nægilega vel að vígi í framhaldinu. Það er greinilegt að stofnuninni er ýtt út í eins mikla gjaldtöku og viðskiptamönnum hennar er mögulegt að ráða við. Það kann auðvitað ekki góðri lukku að stýra ef þannig er. Í slíkri stöðu bjarga forstjórar sér kannski helst á því að hækka það sem þeir hafa til að selja á meðan þeir mögulega geta. Það er greinilegt að viðskiptaaðilar þessarar stofnunar kvarta sáran yfir því að þar sé of langt gengið.