Tryggingagjald

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 13:33:56 (3275)

2000-12-13 13:33:56# 126. lþ. 47.23 fundur 350. mál: #A tryggingagjald# (fæðingarorlof) frv. 156/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[13:33]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég býst við að það sé rétt ályktað hjá hæstv. fjmrh. að ekki þurfi að vera ágreiningur um það frv. sem hann mælir hér fyrir svo sjálfsagt sem það er að ekki sé greitt tryggingagjald af því framlagi sem fer í Fæðingarorlofssjóð eða greiðslur úr honum, en þar er hafður sami hátturinn á varðandi undanþágur og er samkvæmt ákvæðum um eftirlaun og lífeyri sem Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóðir greiða sem eru undanþegnir tryggingagjaldi, auk annarra bóta sem greiddar eru af Tryggingastofnun ríkisins, þar með talið fæðingarorlof. Hér er því auðvitað um sjálfsagða og eðlilega lagfæringu að ræða og aðlögun að þeirri breytingu sem er á fæðingarorlofskerfinu og vænti ég þess að málið fái greiðan aðgang í gegnum nefnd og þingið, þótt aldrei sé það til fyrirmyndar að koma með mál svona seint inn í þingið.

En ég hefði talið, herra forseti, að mjög þarft, gott og áhugavert hefði verið fyrir marga ef hæstv. ráðherra eða félmrh. sem ber ábyrgð á framkvæmd laga um fæðingar- og foreldraorlof hefðu gert þinginu grein fyrir stöðu undirbúnings að gildistöku á lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem á að taka gildi um næstu áramót. Hér er náttúrlega um að ræða mikla breytingu á tilhögun fæðingarorlofs sem mikil, breið og góð samstaða er um innan og utan þings, en þarna voru ýmis ákvæði sem þurftu undirbúnings við fyrir gildistökuna sem mér a.m.k. lék forvitni á að heyra hvað liði. Ég sé að hæstv. félmrh. er ekki hér viðstaddur og sjálfsagt er það svo að fjmrh. hefur ekki grannt fylgst með þeim undirbúningi.

Þó er það svo að í lögunum um fæðingar- og foreldraorlof á félmrh. að gæta þess að sjóðurinn hafi nægilegt laust fé til að standa við skuldbindingar sínar og sjóðurinn á árlega að gera fjárhagsáætlun sem félmrh. leggur fyrir fjmrh. við undirbúning fjárlaga. Vænti ég að þess hafi verið gætt og sú áætlun hafi verið lögð fyrir fjmrh. og að ekkert vanti upp á það án þess að ég ætli að fara að gera kröfu um að yfir það verði farið. Það hefur væntanlega verið athugað í fjárln. að ekkert vanti upp á að þessi sjóður sé albúinn til að takast á við það mikilvæga verkefni sem honum er ætlað.

Ég hefði líka viljað við þessa umræðu, bara af því það er áhugavert og hefði ekki þurft að taka langan tíma, að hæstv. ráðherrar hefðu gert þinginu grein fyrir áhrifum af þeirri breytingu sem upp var tekin t.d. hjá ríkisstarfsmönnum og á almenna markaðnum varðandi rétt feðra til fæðingarorlofs sem er geysilega mikilvægt jafnréttismál að komið er til framkvæmda, þó ekki sé ýkja langt gengið í því efni og það mál eigi að takast í áföngum. Ég hefði viljað fá aðeins yfirlit og yfirferð yfir það hve mikið þessi sjálfstæði réttur feðra til fæðingarorlofs hefur verið nýttur. Eitthvað hefðum við sjálfsagt getið fengið um það og af því örfáir dagar eru í að þessi lög taki gildi hefðum við örugglega getað fengið einhverjar upplýsingar um stöðuna að því er varðar þessi nýju lög vegna þess að nokkrir hafa örugglega sótt um samkvæmt nýju lögunum og það vekur vissulega upp forvitni um hvaða árangur verður af þessum nýju lögum.

Eins hafði ég nokkrar áhyggjur af því sem mætti kannski kalla yfirgangstíma þegar verið væri að fara úr gamla fæðingarorlofskerfinu yfir í það nýja, hvort einhver vandamál hefðu komið upp lagatæknilegs eðlis eða eitthvað sem á þyrfti að taka, en sjálfsagt er það ekki fyrst hæstv. ráðherra hreyfir því ekki.

En ég vænti þess, herra forseti, að hæstv. fjmrh., sem hefur hlýtt á mál mitt, og hæstv. félmrh. sem er ekki hér viðstaddur að ef hann hefur einhverja vitneskju eða hugmyndir um það sem ég hef aðeins imprað á í örstuttu máli, sérstaklega varðandi fæðingarorlof feðra, að hann komi þá fram með þær upplýsingar og stöðuna að því er varðar gildistöku á þessum nýju lögum hafi hann einhverja vitneskju um það.

En varðandi tryggingagjaldið þá er þar sjálfsagt mál á ferðinni sem vonandi fær greiðan gang í gegnum þingið.