Staðgreiðsla opinberra gjalda

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 14:00:34 (3280)

2000-12-13 14:00:34# 126. lþ. 47.18 fundur 343. mál: #A staðgreiðsla opinberra gjalda# (reiknað endurgjald) frv. 157/2000, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[14:00]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Í 6. gr. umræddra laga er fjallað um reiknað endurgjald svokallað, en skv. 4. mgr. greinarinnar ber ríkisskattstjóra árlega að setja viðmiðunarreglur til leiðbeiningar fyrir skattstjóra vegna ákvörðunar reiknaðs endurgjalds. Í 4. málslið þessarar málsgreinar er sérstaklega kveðið á um að viðmiðunartekjur þeirra sem landbúnað stunda skuli miðaðar við vinnuþátt í verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða.

Svo sem kunnugt er var verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða sem lagður var til grundvallar við setningu laga um staðgreiðslu opinberra gjalda á sínum tíma breytt með lögum nr. 69/1998, um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Af þessum sökum er framangreind sérregla um reiknað endurgjald bænda úrelt og því er lagt til að umræddur 4. málsliður 4. mgr. 6. gr. laganna verði felldur brott. Í breytingu þessari felst að ríkisskattstjóri mun framvegis setja viðmiðunarreglur vegna reiknaðs endurgjalds bænda með sama hætti og gildir um endurgjald annarra starfsstétta. Þannig verða sömu grunnsjónarmið látin gilda um allar starfsstéttir en skv. 3. málslið greinarinnar ber ríkisskattstjóra að hafa hliðsjón af gildandi kjarasamningum og raunverulegum tekjum í viðkomandi starfsgrein.

Í frv. er lagt til að lagabreyting þessi öðlist gildi nú þegar og komi til framkvæmda við setningu viðmiðunarreglna fyrir staðgreiðsluárið 2001.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.