Umgengni um nytjastofna sjávar

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 14:04:04 (3281)

2000-12-13 14:04:04# 126. lþ. 47.14 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv. 161/2000, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[14:04]

Frsm. sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 514. Það er vegna breytinga á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

Í umræddu frv. er leita leiða til að kanna brottkast á afla og jafnframt til að koma í veg fyrir það eftir aðferðum sem menn þekkja. Nefndin fór mjög rækilega yfir þetta mál, efnislega yfir frv., forsendur fyrir eftirlitinu almennt og ýmis álitamál sem þar eru uppi.

Nefndin vekur athygli á að heimild Fiskistofu nær til þess sé að afli tiltekins skips að gæðum frábrugðinn afla annarra skipa sem stunda sambærilegar veiðar megi grípa til þeirra ráðstafana að senda mann um borð og vera þar um ótiltekinn tíma. Við bendum á að slíkar heimildir eru matskenndar og vandasamar úrlausnar. Leggur nefndin því til að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins verði falið að móta gæðastaðla sem miða skuli við þegar heimildinni er beitt.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að þegar veiðieftirlitsmaður hefur verið um borð í skipi í sjö daga geti Fiskistofa ákveðið hvort hann skuli vera áfram, þá á kostnað útgerðarinnar, ef tilefni er til. Innan sjútvrn. var rætt um hvernig heimildinni skyldi beitt þegar um dagróðrabáta væri að ræða. Telur nefndin eðlilegt að í slíkum tilvikum sé miðað við sjö einstakar veiðiferðir á fiskveiðiári. Til þess að taka af tvímæli um þetta leggur nefndin til breytingu í samræmi við það, sem fylgir hér með á þessu skjali.

Jafnframt leggur nefndin áherslu á að með orðinu veiðiferðir er verið að taka af allan vafa um að hver veiðiferð þurfi ekki að standa yfir í heilan sólarhring þegar um dagróðrabáta er að ræða, eins og menn þekkja og þarf út af fyrir sig ekki að útskýra frekar.

Innan nefndarinnar var talsvert rætt um hvort fortakslaus skylda Fiskistofu samkvæmt orðanna hljóðan í frv., til að setja mann um borð mundi íþyngja stofnuninni um of. Nefndin telur að auk hinnar almennu heimildar sem Fiskistofa hefur í gildandi lögum, bæði þessum lögum um umgengni um nytjastofna og eins í fiskveiðistjórnarlögunum sjálfum, sé nauðsynlegt að skýrt sé kveðið á um að Fiskistofa skuli grípa til aðgerða ef samsetning afla, eins og nánar er kveðið á um í frumvarpstextanum, gefi tilefni til.

Virðulegi forseti. Ég tel sérstaka ástæðu til að nefna það að nefndin fór rækilega yfir ýmis atriði sem snúa almennt að framkvæmd veiðieftirlitsins með starfsmönnum Fiskistofu, fulltrúum sjútvrn. og síðan á fundum með hagsmunaaðilum og á eigin fundum. Það er ljóst að þar eru uppi ýmis álitamál, sérstaklega þau sem lúta að tímabundinni sviptingu veiðileyfa vegna brota sem augljóslega stafa af gáleysi eða mannlegum mistökum sem alltaf geta átt sér stað í þessum efnum eins og öðrum. Það er ljóst að lögin eru mjög afdráttarlaus að þessu leyti, þau kveða á um að ef menn brjóta af sér, jafnvel þó að klárlega sé um gáleysi að ræða, skuli grípa til tiltekinna úrræða. Á þeim grundvelli hefur Fiskistofa ekki treyst sér til að gera greinarmun á því hvort um sé að ræða ásetningsbrot eða brot þar sem mönnum hafa ekki verið ljósar aðstæður, t.d. að það hafi farið fram hjá mönnum að þeir hefðu ekki nægilegar veiðiheimildir fyrir afla sem þeir eru að landa o.s.frv. Auðvitað er það ekki ætlun löggjafans að refsa þeim sem verður fyrir einhverjum slíkum gáleysisyfirsjónum sem að öðru leyti ættu ekki að vera refsiverðar.

Það er ekki augljóst hvernig taka ætti slíkum álitamálum. Þess vegna varð það eiginlega niðurstaðan af þessum vangaveltum í nefndinni að hæstv. sjútvrh. hefur sett af stað vinnu við endurskoðun þessara þátta málsins, þ.e. því sem snýr að framkvæmdinni sjálfri. Hugmyndin er sú að endurskoðunarvinnan fari fram í samráði við hagsmunaaðila og sjútvn. leggur mikla áherslu á að því starfi verði hraðað.

Nefndin leggur síðan til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem þar eru kynntar og ekki er ástæða til að lesa hér upp.

Undir þetta nál. rita hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, formaður og framsögumaður, Árni Ragnar Árnason, Guðmundur Hallvarðsson, Jónas Hallgrímsson og Hjálmar Árnason. Með fyrirvara undirrita nál. þetta hv. þingmenn Jóhann Ársælsson, Svanfríður Jónasdóttir og Guðjón A. Kristjánsson. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.