Málefni aldraðra

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 14:34:42 (3288)

2000-12-13 14:34:42# 126. lþ. 47.15 fundur 317. mál: #A málefni aldraðra# (Framkvæmdasjóður aldraðra) frv. 172/2000, Frsm. minni hluta ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[14:34]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá minni hluta hv. heilbr.- og trn., um frv. til laga um breytingar á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, á þskj. 522, 317. mál.

Minni hlutinn lýsir ábyrgð á fyrirhugaðri skattahækkun samkvæmt frv. á hendur ríkisstjórninni.

Minni hlutinn er andvígur frv. í núverandi mynd.

Í fyrsta lagi byggist afstaða minni hlutans á því að í upphafi hafi einungis verið ætlast til þess að fé úr sjóðnum rynni til uppbyggingar hjúkrunarrýmis, vistheimila o.s.frv. Með lögum nr. 12/1991 var fyrst heimilað að veita fé úr sjóðnum til rekstrar. Um var að ræða tímabundið rekstrarfé til stofnana aldraðra sem breyta eða hefja starfsemi eftir að fjárlagaár hefst. Eins og sjá má var einungis um mjög þrönga heimild að ræða. Með lögum nr. 109/1992 var þessu ákvæði breytt á ný með þeim hætti að heimilt var að nýta 55% af framlögum í sjóðinn til rekstrar á árunum 1993, 1994 og 1995 auk þess sem fyrri heimild hélst inni enda erfiðleikar í efnahagsmálum þjóðarinnar á þeim tíma. Á árinu 1999 voru síðan samþykkt ný heildarlög um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Í þeim lögum er enn inni heimild til að verja fé úr sjóðnum til rekstrar. Samkvæmt lögunum er heimild til að verja fé úr sjóðnum til rekstrar stofnanaþjónustu fyrir aldraða í sérstökum tilvikum án þess að kveðið sé á um hámark slíkra fjárveitinga. Nú liggur fyrir að um 55% þess fjár sem í sjóðinn rennur fer til rekstrar þrátt fyrir svokallað góðæri og virðist sem venja hafi skapast um þetta hlutfall með lögum nr. 109/1992. Minni hlutinn telur að með þessu sé framkvæmdin kominn langt út fyrir upphaflegt markmið sjóðsins sem átti í upphafi að renna eingöngu til uppbyggingar á þjónustu og hjúkrunarrými en ekki til rekstrar þess. Með því að færa framkvæmdina nær hinum upprunalega tilgangi telur minni hlutinn að hækkun gjaldsins sé óþörf. Í þessu sambandi leggur minni hlutinn til að óheimilt verði að ráðstafa meira en 25% af framlögum í sjóðinn til rekstrar. Minni hlutinn vill einnig benda á að grg. frv. sé villandi þar sem þar er látið skína í að allt fé úr sjóðnum renni til uppbyggingar en slíkt á ekki við rök að styðjast.

Í öðru lagi byggir afstaða minni hlutans á því að hér sé um svokallaðan ,,nefskatt`` að ræða sem felur í sér að allir sem á annað borð borga skatta borga sömu upphæðina óháð tekjum að öðru leyti. Slík skattlagning hlýtur alltaf að vera óréttlát því hún skerðir tekjur hinna lægstlaunuðu hlutfallslega meira en þeirra sem hærri hafa launin. Því telur minni hlutinn ef þörf er á auknu fé til uppbyggingar eigi það að greiðast beint úr ríkissjóði.

Í þriðja lagi vill minni hlutinn benda á að þótt ekki sé um háar upphæðir að ræða þá samsvari þessi hækkun um 15% þeirrar launahækkunar sem lægstlaunuðu félagsmenn ASÍ o.fl. eiga von á um næstkomandi áramót.

Ég minni einnig á að allir þeir sem eru með tekjur fyrir ofan skattleysismörk greiða til sjóðsins. Í þann hóp hafa bæst lífeyrisþegar og öryrkjar, þ.e. þeir sem eru eingöngu með greiðslu frá almannatryggingunum og eru komnir yfir skattleysismörkin. Þeir borga tugi þúsunda í skatta á ári hverju og fá þarna viðbótarskattlagningu rúmar 5.000 kr. vegna þess að skattleysismörkin hafa staðið í stað. Einnig kom fram og hefur auðvitað oft komið fram í nefndinni að um 47% allra öryrkja hafa ekki greiðslur úr lífeyrissjóðum og þurfa að treysta einvörðungu á almannatryggingarnar og þeir sem búa einir þurfa að fara að greiða þetta gjald.

Með vísun til framangreinds leggur minni hlutinn til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru eftirfarandi:

1. Lagt er til að 1. gr. frv. verði felld niður þannig að upphæð gjaldsins standi óbreytt. Í stað þessa er lagt til að í 1. gr. verði kveðið á um að óheimilt sé að nýta meira en 25% af framlögum til sjóðsins til rekstrar.

2. Þá er lagt til að við frv. bætist ný grein þar sem örorkulífeyrisþegar verði undanþegnir gjaldinu á sama hátt og aldraðir.

Þar er vísað til þess sem kom fram í máli mínu áðan, að örorkulífeyrisþegar sem eru með lágmarksgreiðslur greiða til sjóðsins en svo var ekki áður. Fyrir árið 1995 voru örorkulífeyrisþegar undir skattleysismörkum og greiddu því ekki til sjóðsins. Við leggjum því til að þeir verði undanþegnir þessum skatti og ef svo verður, gætum við samþykkt þetta frv. með fyrrgreindum breytingum.

Herra forseti. Ég mæli því fyrir brtt. á þskj. 523 við þetta frv. Brtt. eru frá þeirri sem hér stendur og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Bryndísi Hlöðversdóttur og eru svohljóðandi:

,,1. Við 1. gr. Greinin orðist svo:

Við 4. tölul. 2. mgr. 9. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er að nýta meira en 25% af því fé sem í sjóðinn rennur til rekstrar.

2. Á eftir 1. gr. komi ný grein er orðist svo:

1. málsl. 2. mgr. 10. gr. laganna orðast svo: Undanþegin gjaldinu eru börn innan 16 ára aldurs, þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs og örorkulífeyrisþegar.``

Fyrri hluti setningarinnar stendur nú í lögunum þannig að börn innan 16 ára aldurs og þeir sem verða sjötugir og eldri í lok tekjuárs eru undanþegnir greiðslu til sjóðsins. Hér er sem sagt lagt til að örorkulífeyrisþegar bætist í hóp þeirra sem verða undanþegnir með þeim rökum sem ég nefndi áðan er ég mælti fyrir nál., í ljósi þess að þeir eru nú farnir að greiða skatta sem fá eingöngu bætur frá Tryggingastofnun og sömuleiðis lenda þeir í að greiða þessa skattahækkun.