Stefna í málum Landspítala - háskólasjúkrahúss í Kópavogi

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 15:02:41 (3293)

2000-12-13 15:02:41# 126. lþ. 48.1 fundur 288. mál: #A stefna í málum Landspítala - háskólasjúkrahúss í Kópavogi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[15:02]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Fyrirspurnin er tvíþætt því að skipta má íbúum á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi í Kópavogi í tvo hópa. Annars vegar eru þeir sem búa í svokallaðri blokk og þurfa ekki mjög mikla þjónustu og hins vegar þeir sem þurfa mikla aðstoð við allar athafnir daglegs lífs eins og kom fram í ræðu hv. þm. áðan.

Í blokkinni eru um 20 íbúar sem allir eru líkamlega eða andlega fatlaðir. Starfseminni er skipt niður í fjórar einingar sem má líkja við fjögur sambýli fatlaðra. Framtíð þessara einstaklinga hefur verið rædd innan heilbr.- og trmrn., við félmrn. og við samtökin Þroskahjálp.

Það er sameiginlegt álit þessara aðila að rétt sé að fella fyrirgreiðslu við þá einstaklinga sem það á við undir lög og reglur sem gilda um málefni fatlaðra. Því hafa heilbrrh. og félmrh. ákveðið að gera breytingu á fyrirkomulagi þjónustunnar upp úr næstu áramótum. Frá þeim tíma er áformað að ábyrgð stjórnvalda breytist þannig að þjónusta við þessa einstaklinga færist yfir til félagsmálayfirvalda. Þess vegna mun heilbrrh. á næstu dögum skipa starfshóp til þess að útfæra þá breytingu sem hér um ræðir. Tilnefnt hefur verið í hópinn af hálfu félmrn. og Landspítalans -- háskólasjúkrahúss en auk þess sitja í starfshópnum tveir fulltrúar heilbrrn. Starfshópurinn mun hefja störf fljótlega og er honum ætlaður skammur tími til að ljúka því verkefni sem fyrir hann er lagt. Færa þarf þá rekstrarfjármuni sem hafa verið á vegum spítalans til félagsmálayfirvalda. Jafnframt verða teknar upp viðræður við Sunnuhlíðarsamtökin í Kópavogi um kaup á umræddri blokk en samtökin hafa lýst áhuga sínum á að kaupa þetta húsnæði.

Blokkin í Kópavogi er komin nokkuð til ára sinna eins og hér hefur verið rætt um áður í þingsölum og þarf mikilla viðgerða við. En ég vil endilega að það komi fram að ekki er verið að selja blokkina án þess að búið sé að finna sambýli fyrir þá sem þar eru í dag. Það verður ekki gert og það verður tryggt af hendi félmrh. og heilbrrh., að sjálfsögðu verður það ekki gert þannig að fólkið getur verið öruggt um sinn hag.

Hvað síðari hópinn varðar, þ.e. þá sem þurfa mjög mikla þjónustu þá standa engin áform um að breyta stöðu þeirra. Spítalinn mun hér eftir sem hingað til búa þeim viðeigandi aðstöðu og sjá þeim farborða.

Verulegar breytingar hafa átt sér stað á allri starfsemi í Kópavogi á undanförnum árum. Fyrir um það bil tíu árum var ákveðið að útskrifa stóran hóp vistmanna Kópavogshælisins. Þá hefur þeim einstaklingum fækkað sem þar hafa dvalið vegna þess að nýir einstaklingar hafa ekki fyllt þau skörð sem myndast hafa. Gangi þær breytingar eftir sem stefnt er að og ég hef nú lýst verður starfsemi Landspítala -- háskólasjúkrahúss í Kópavogi þannig háttað að þar verður rekin líknardeild, endurhæfing í formi göngu- og dagdeildar og umönnun barna og þeirra sem þurfa mikillar þjónustu við. Stjórnendur spítalans vinna nú jafnframt að því að finna not fyrir það húsnæði sem rýmst hefur, bæði með því að flytja tiltekna starfsemi í Kópavog og leigja út til annarra nota.

Virðulegi forseti. Ég vona að þessi svör mín hafi svarað fyrirspurn hv. þm.