Úrskurður um vega- og brúarframkvæmdir í Fljótsdal

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 15:43:42 (3309)

2000-12-13 15:43:42# 126. lþ. 48.4 fundur 315. mál: #A úrskurður um vega- og brúarframkvæmdir í Fljótsdal# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið um þessa ágætu fyrirspurn. Ég skynja það þannig að hv. þm. Þuríður Backman vill ná því fram að hugsanlega þarf að búa betur að umhvrn. og mér þykir vænt um að skynja það.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir spurði hvaða áhersla væri á úrskurði gagnvart skógrækt, ef ég skildi það rétt. Í ráðuneytinu tökum við við þeim kærum sem berast á úrskurði skipulagsstjóra og séu þær studdar lögmætum rökum og í eðlilegum farvegi fjöllum við um þær allar. Við fjöllum um allar þær kærur sem koma til ráðuneytisins.

Ég tek undir það sem kom fram í lokaorðum hv. þm. Þuríðar Backman að það eru eiginlega bara tvær leiðir færar ef ástandið skánar ekki, þ.e. ef kærum heldur áfram að fjölga svona, þá er lausnin annaðhvort að fjölga starfsfólki í umhvrn. til að fjalla um kærurnar eða lengja lögbundna tímann þannig að við náum að halda okkur við eðlileg tímamörk. Hann er núna átta vikur á úrskurði skipulagsstjóra og okkar frestur er einungis fjórar vikur þegar tilkynningarskyldan svokallaða er kærð til okkar, þ.e. framkvæmdir sem eru tilkynnarskyldar. Ef skipulagsstjóri kemst að því t.d. að einhver framkvæmd sé ekki umhverfismatsskyld, þá virðist það vera kært til okkar og þá höfum við einungis fjórar vikur. Við þurfum að senda kærurnar til umsagnar ýmissa stofnana, fá svör og senda svörin út aftur o.s.frv. Þetta er þungt ferli og við höfum ekki náð að halda okkur innan tímamarka þannig að það er annað tveggja ef þetta skánar ekki --- ég ber reyndar von í brjósti að ástandið geti skánað, það sé kúfur núna --- þá þarf að fjölga fólki eða lengja lögbundinn tíma.