Útflutningsskylda sauðfjárafurða

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 15:47:46 (3311)

2000-12-13 15:47:46# 126. lþ. 48.5 fundur 316. mál: #A útflutningsskylda sauðfjárafurða# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[15:47]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil svara þessari fyrirspurn. Hv. þm. spyr: Hver hefur verið útflutningsskylda sauðfjárafurða frá upphafi núgildandi búvörusamnings, sundurliðað eftir árum?

Árið 1996 voru flutt úr 1.180 tonn af dilkakjöti og 141 tonn af ærkjöti, árið 1997 724 tonn af dilkakjöti og 133 tonn af ærkjöti. Árið 1998 878 tonn af dilkakjöti, ekkert af ærkjöti og ekkert af ærkjöti síðan. Árið 1999 1.588 tonn af dilkakjöti.

Ef ég fer til fróðleiks yfir prósentuna sem veitt hefur verið, þá var það árið 1996 19% á dilkana, 1997 13%, 1988 15% útflutningsskylda. Árið 1999 breyttist þetta dálítið og árinu var skipt upp. Í fyrsta lagi var minna í sumarslátrun, en var þó í ágúst 10%, ekkert það sem slátrað var í júlí það ár. Í september til október var það 25% og svo aftur frá 1.--14. nóvember 10% og síðan ekkert.

Árið 2000 eða í ár er það frá 13.--31. ágúst 12%, september og október 20% og 1.--18. nóvember 12% útflutningsskylda og ekkert eftir það.

Hv. þm. spyr: Hvaða áhrif hafa uppkaup ríkisins og breytt eftirspurn eða sala á innanlandsmarkaði haft á útflutningsskyldu milli ára?

Áhrif af uppkaupum ríkissjóðs hafa dregið úr útflutningsskyldu. Það held ég að liggi alveg fyrir. Engar mælingar eru til sem geta samt sýnt það í tölum.

Segja má að neysla hér innan lands á þessu tímabili þ.e. frá 1995--2000 hafi haldist, að hver einstaklingur borðar jafnmikið má segja á þessum árum af lambakjöti og hann gerði og nú er það að gerast að neyslan er að aukast. Lambakjötið er eftirsóttara innan lands en það hefur verið og nýlega voru í blöðunum upplýsingar um það.

Segja má að það hafi fyrst og fremst ráðist af ákvörðunum framleiðenda um framleiðslu umfram það sem beingreiðsluréttur viðkomandi framleiðenda hefur gefið tilefni til. Frjálst er að framleiða í dag lambakjöt. Það er frjálst. En mismunur innanlandsneyslu og framleiðslu kemur fram sem útflutningsskylda. Eftir að ég kom í þetta sæti hefur það verið greinin sjálf sem hefur samkvæmt þeim samningum sem hún gerði sóst eftir því að viðhalda útflutningsskyldunni, bæði af því að greinin trúir á markaði sem verið er að vinna og síðan er það þetta sem hún vill forðast, að hér séu til kjötfjöll eins og var þekkt á árum áður. Nú er það kannski á mörkuðunum og það finnur sauðfjárbóndinn og afurðastöðvarnar að það er allt annað að standa þannig að vera ekki með fjöll af kjöti heldur að markaðurinn veit að þetta er vara sem er ný, selst og hinar gömlu stórbrotnu útsölur sem við þekktum á árum áður, tilheyra fortíðinni. Það er kannski þess vegna sem þessir samningar voru gerðir að tilstuðlan bænda ekki síst til þess að skapa nýtt markaðsumhverfi fyrir þessar dýrmætu og eftirsóttu afurðir.

Þriðja spurningin er svo: Hafa útflutningsskyldar sauðfjárafurðir verið seldar á innanlandsmarkaði? Ef svo er, hve mikil hefur sú sala orðið o.s.frv.?

Svarið er að útflutningsskylt kjöt hefur ekki verið selt á innanlandsmarkaði. Það hefur verið skýr regla í því.