Útflutningsskylda sauðfjárafurða

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 15:54:03 (3313)

2000-12-13 15:54:03# 126. lþ. 48.5 fundur 316. mál: #A útflutningsskylda sauðfjárafurða# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[15:54]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. greið svör við þessari fyrirspurn og hv. þm. Sunnlendinga undirtektirnar. Ég vil hins vegar segja sem er, herra forseti, um svar hæstv. ráðherra við þriðja lið fyrirspurnarinnar þar sem hann segir að útflutningsskyldar sauðfjárafurðir hafi ekki verið seldar á innanlandsmarkaði, reglur séu skýrar þess efnis. Heimildir mínar segja að þó nokkuð af útflutningsskyldum sauðfjárafurðum hafi farið á innanlandsmarkað og verði fyrir þær hafi ekki verið skilað til bænda samkvæmt almennum reglum um verðskil á vörum sem fara á innanlandsmarkað.

Ég vænti þess, herra forseti, að landbrh. láti kanna rækilega hvort rétt er. Ég tel það skipta afar miklu máli að réttar upplýsingar liggi fyrir þegar menn fjalla til að mynda um það hvort og hvenær, sem ég tel raunar óumflýjanlegt að verði nú bráðlega, verði afnumdar hömlur á markaðssetningu sauðfjárafurða og hömlur við framsal bænda á greiðslumarki milli búa í hagræðingarskyni. Eins og ákvæðin eru í dag, herra forseti, er söluaðilum og sláturleyfishöfum gerður betri kostur til slíkra aðgerða en bændunum sjálfum. Ég tel það mismunun og hef sagt svo áður. Ég vil eindregið óska þess að hæstv. landbrh. beitti sér í þessu efni, fái réttar upplýsingar og fái fram breytingar á þessum ákvæðum sem þrengja mjög að bændum.