Útflutningsskylda sauðfjárafurða

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 15:55:55 (3314)

2000-12-13 15:55:55# 126. lþ. 48.5 fundur 316. mál: #A útflutningsskylda sauðfjárafurða# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[15:55]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Kannski er það að slá mann kaldan að koma upp með slíkar fullyrðingar og kannski hefði verið eðlilegra hjá hv. þm. að óska eftir skriflegu svari frá landbrh. þar sem hægt væri að fara yfir þá stöðu.

Ég hef rakið þær upplýsingar sem ég hef og hef ekki heyrt að menn komist upp með að svindla á kerfinu. Ég mun auðvitað fara rækilega yfir þetta mál í ráðuneyti mínu, hvort brotalöm sé á þeim samningi sem er í rauninni lagabundinn því að Alþingi hefur fjallað um hann og styður hann þannig að ég mun fara yfir það.

Það liggur fyrir að verið er að kaupa upp 34 þúsund ærgildi og átti að kaupa upp 45 þúsund. Ég hygg að það komi að því í lok næsta árs að bændur geti selt framleiðslurétt sinn eða ríkisstuðninginn, má segja, sín á milli. Ég tek það aftur fram að hverjum manni er frjálst að framleiða lambakjöt og þá án ríkisstuðnings. En auðvitað kemur annar tími. Ég vona að það verði farsæll tími. Ég sé að hinn gæðastýrði samningur sem gerður var lofar góðu. Hann vekur áhuga. Hann vekur fagmennsku og vonandi nýjan tíma í þessari búgrein sem, eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir sagði áðan, á kannski einmitt mikla möguleika núna. Við sjáum hærra verð en nokkru sinni fyrr á mjög takmörkuðum sérmörkuðum, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu sem sækjast eftir þessu kjöti, þess vegna einnig nautakjötinu okkar og fleiri afurðum úr hinni hreinu náttúru Íslands. Við sjáum þar svona ljós í myrkrinu og nýja möguleika sem landbúnaðurinn hlýtur að nýta sér.