Nýting sláturúrgangs í dýrafóður

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 15:58:26 (3315)

2000-12-13 15:58:26# 126. lþ. 48.6 fundur 321. mál: #A nýting sláturúrgangs í dýrafóður# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[15:58]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Mengunarmál eru ofarlega á baugi þessa dagana. Það er rætt um mengun lofthjúps jarðar, mengun hafsins, mengun jarðvegsins og mengun í fæðukeðjunni.

Eiturefnin sem lífsstíll mannkynsins krefst að sé dælt út í jarðveginn og út í umhverfið eru komin í fæðukeðjuna okkar og framleiðsluhættir okkar, þar með taldir framleiðsluhættir á landbúnaðarvörum, hafa greinilega orsakað að þjóðir heims hafa ekki sýnt nægan vara. Svo er nú komið að nauðsynlegt er að endurreisa traust neytenda á landbúnaðarvörum. Í allri þeirri umræðu sem hefur staðið nú upp á síðkastið vegna tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um bann á notkun dýramjöls í fóðri og vegna þess að notkun sláturúrgangs og beinamjöls hefur nú verið bönnuð í fóðri dýra sem ræktuð eru til manneldis í Evrópu til manneldis, þá legg ég þessar fyrirspurnir sem hér liggja frammi fyrir hæstv. landbrh.

Nú er það vitað, herra forseti, að sláturúrgangur hefur ekki verið notaður í dýrafóður fyrir jórturdýr hér á landi í 22 ár og er það auðvitað vel. Hitt er eins ljóst að slíkur úrgangur eða kjötmjöl, sem unnið er úr slíkum úrgangi, er notað í fóður handa dýrum sem ætluð eru til manneldis og á ég þá við alifugla, fiska og svín. Nú spyr ég hæstv. ráðherra hvort það hafi nokkuð komið til greina að breyta reglugerð nr. 660/2000, um meðferð og nýtingu á sláturúrgangi og dýraúrgangi þannig að kjötmjöl verði ekki notað í fóður fyrir eldisfiska eða skepnur sem ætlaðar eru til manneldis, svo sem alifugla og svín. Ég spyr hann sömuleiðis út í eftirlitsþætti málsins því það er alveg ljóst í þeirri umræðu sem okkur hefur borist frá Evrópu að eftirliti með þessum málum hefur verið ábótavant. Ég ætla að vitna, með leyfi forseta, í grein sem skrifuð var í Morgunblaðið fimmtudaginn 16. nóvember sem gefur vísbendingar um að við þurfum líka að athuga og skoða allt okkar eftirlit. Í þessari grein segir, herra forseti, þar sem verið er að ræða við Sigurð Örn Hansson aðstoðaryfirdýralækni:

,,Þegar Sigurður er spurður hvort eftirlit verði hert með vörum eins og innfluttum nautakrafti segir hann að ekki hafi komið til álita að banna innflutning á slíkum vörum vegna þess að því sé treyst að í löndum þar sem nautariða hefur fundist séu hættulegir vefir sem innihalda riðusmitefni fjarlægðir.``

Herra forseti. Traust er afar viðkvæmt. Neytendur hafa nú þegar misst traustið að miklu leyti. Þörf er á að endurreisa það. Þess vegna spyr ég landbrh. þessarar spurningar.