Nýting sláturúrgangs í dýrafóður

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 16:07:43 (3318)

2000-12-13 16:07:43# 126. lþ. 48.6 fundur 321. mál: #A nýting sláturúrgangs í dýrafóður# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[16:07]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. þau svör sem hann hefur gefið. Sérstaklega vil ég fagna þeirri yfirlýsingu hans að það geti verið til athugunar að endurskoða reglugerð nr. 660/2000 varðandi breytta meðferð um nýtingu á sláturúrgangi. Ég tel það vera til bóta og auka öryggi neytenda og trúverðugleika framleiðslunnar að farin verði sama leið og Evrópusambandið valdi, þ.e. að kjötmjöl, beinamjöl og sláturúrgangur verði ekki nýttur í fóður dýra sem nýta á til manneldis.

Hvað varðar þau ummæli ráðherra að Ísland sé á annarri plánetu hvað landbúnaðarframleiðslu varðar, þá treysti ég mér ekki til að taka svo djúpt í árinni. Ég held að við séum hluti af þessum vestræna markaði sem við eigum viðskipti við. Ég held að þau sjónarmið sem ráða ferðinni í nágrannalöndum okkar hafi áhrif hér. Við þurfum að taka mið af þeim og hlusta á það sem gert er í Evrópusambandinu þó svo að við hlaupum ekki eftir öllu sem þar er gert og við gætum að sjálfsögðu okkar hagsmuna þar.

Eitt vil ég nefna áður en ég hætti, herra forseti, þ.e. möguleg áform um að nýta þann úrgang sem grafinn er til áburðargerðar því nú er þekkt sú tækni að lífrænn úrgangur af ýmsu tagi er nýttur til áburðargerðar með sérstökum aðferðum. Ég hef sjálf heyrt um tilraun sem er í gangi á Íslandi þar sem svínaskít er blandað saman við símaskrána og mun það vera afbragðsefni til jarðvegsgerðar. Ég minni á að hér væri sannarlega átaks þörf í landi sem virkilega þarf á landgræðslu og uppgræðslu lands að halda. Hér gætum við mögulega verið með verðmæta afurð í höndunum sem mætti nýta í áburð í auknum mæli miðað við það sem gert hefur verið hingað til.