Úthald og öryggishlutverk landhelgisgæsluskipanna

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 16:15:43 (3321)

2000-12-13 16:15:43# 126. lþ. 48.7 fundur 346. mál: #A úthald og öryggishlutverk landhelgisgæsluskipanna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[16:15]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Fyrirspurn hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar á þskj. 485 lýtur að skipaúthaldi Landhelgisgæslunnar, annars vegar hvernig úthaldið hafi verið á síðasta ári, sundurliðað eftir mánuðum, hins vegar hvort tryggt verði að tvö skip verði ávallt við gæslu- og eftirlitsstörf samtímis á komandi vetrar- og loðnuvertíð.

Úthald varðskipanna þriggja var 670 dagar árið 1999, 702 dagar eru ráðgerðir á þessu ári og á næsta ári eru ráðgerðir 673 úthaldsdagar. Úthaldið verður því mjög svipað á þessum þremur árum eða rétt um 700 dagar hvert ár. Breytingar verða þó á skipaúthaldinu og tel ég ástæðu til að útskýra þær og hvernig störfin verða skipulögð vegna þeirra samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér frá Landhelgisgæslunni.

Óðinn er elsta varðskipið, 40 ára gamalt. Til þess að komast hjá því að leggja í mjög kostnaðarsamar flokkunarviðgerðir að kröfu Lloyds Register flokkunarfélagsins verður honum lagt í vetur. Hann verður síðan notaður næsta sumar en heimilt verður að nota hann yfir sumartímann fram til ársins 2003 án flokkunarviðgerða. Það verða því Ægir og Týr sem verða við gæslu-, öryggis- og eftirlitsstörf á næsta ári að vetri til. Eftir vandlega athugun þótti það ekki fýsilegur kostur að taka á leigu skip í stað Óðins. Um ýmsar leiðir var að velja við skipulagningu á störfum skipanna tveggja en sú leið sem valin var tryggir að heildarúthaldstími varðskipanna er ráðgerður aðeins tveimur vikum skemmri á árinu 2001 en í ár og reyndar aðeins meiri en árið 1999. Í stað þriggja áhafna á þrjú varðskip verða nú tvisvar sinnum ein og hálf áhöfn. Áhafnir skipanna fara nú út á mánudegi og koma í höfn að 16 dögum liðnum og eru þá frá miðvikudegi til mánudags eða í fimm og hálfan dag í landi. Við breytinguna verða skipin einnig 16 daga á sjó í senn en aðeins tvo og hálfan dag í landi. Að tveimur ferðum loknum verður áhöfnin 18 daga í landi. Jafnframt verður stefnt að því að láta áhafnaskipti varðskipanna fara oftar fram í næstu höfn við gæslu- eða öryggissvæði þar sem fiskiskip eru hverju sinni. Þetta nýja fyrirkomulag hefur verið rækilega kynnt fyrir öllum áhöfnum allra varðskipanna.

Með þessum breytingum skapast nú meira svigrúm til þess að auka menntun skipsáhafnarmanna frá því sem verið hefur og ráðgert er að auka möguleika háseta á skipunum til að afla sér 30 tonna skipstjórnarréttinda svo dæmi sé tekið.

Það skiptir mjög miklu máli að unnt sé að veita því dugmikla fólki sem starfar hjá Landhelgisgæslunni aukna menntun hvort heldur er endurmenntun, símenntun eða réttindamenntun. Á árinu 2001 munu bæði Ægir og Týr, en þau eru 32 og 25 ára gömul, þurfa að fara í flokkunarviðgerðir en ráðgerður viðgerðartími er þrír mánuðir fyrir hvort skip. Áætlað er að fyrra skipið verði frá vegna þessa í maí til júlí og hið síðara frá ágúst til október á næsta ári. Á þeim tíma mun Óðinn verða notaður eins og að framan er rakið þannig að einnig þá verða ávallt tvö varðskip við störf.

Í fjárlögum eru tryggðar fjárveitingar til umræddra flokkunarviðgerða og einnig fékkst fjárveiting að fjárhæð 40 millj. kr. til breytinga á Ægi og Tý sem unnar verða samtímis flokkunarviðgerðum og er ástæða til að fagna því. Eins og menn muna eru mörg ár síðan farið var að leggja drög að endurnýjun elsta varðskipsins. Vinna við útboðslýsingu á nýju varðskipi er nú á lokastigi og mun því verki vonandi verða lokið fyrir næstu áramót. Virðist þá ekkert vera því til fyrirstöðu að hefjast handa við að bjóða út smíði nýs varðskips um leið og ákvörðun er tekin um að gera það.

Herra forseti. Ég tel að ofangreindar breytingar sem gera þarf á úthaldi varðskipa muni ekki skerða möguleika Landhelgisgæslunnar til að gegna öryggis- og eftirlitshlutverki sínu. Eins og fram hefur komið verður heildarúthaldstími örlítið skemmri á árinu 2001 en í ár en aðeins meiri en árið 1999. Undirbúningur að smíði nýs varðskips er kominn á góðan rekspöl eins og lýst hefur verið.

Ég er með í höndunum gögn þar sem úthaldsdagar varðskipanna eru sundurliðaðir mánuð fyrir mánuð árin 1999 og 2000 og hvernig þeir eru ráðgerðir á árinu 2001 og ég mun afhenda hv. fyrirspyrjanda þessi gögn hér með.