Hækkun afnotagjalda RÚV og forsendur fjárlaga

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 10:43:57 (3331)

2000-12-14 10:43:57# 126. lþ. 49.91 fundur 207#B hækkun afnotagjalda RÚV og forsendur fjárlaga# (aths. um störf þingsins), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[10:43]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég fagna þessum umræðum. Það þarf að útskýra þetta mál og nú hafa þingmenn fengið upplýsingar um það. Það er rétt að þessar ákvarðanir voru teknar í sömu andrá og gengið var frá fjárlögum fyrir árið 2001. Það hefur aldrei verið neitt launungarmál af minni hálfu hvernig að þessu máli er staðið. Það var skýrt fyrir fjárln. sérstaklega á lokastigum fjárlagaafgreiðslunnar hvernig fjárhag Ríkisútvarpsins væri háttað og einnig rætt ítarlega í útvarpsráði á þeim tíma. Það er misskilningur hjá hv. þm. að ákvörðun sem þessi af hálfu menntmrh. kalli á að menn endurskoði fjárlögin því að afnotagjöld útvarpsins hafa að sjálfsögðu verið hækkuð án þess að menn brjóti upp fjárlagagerð eða flytji sérstök fjáraukalög af því tilefni eins og hv. þm. vita.

Ég held að hv. þm. eigi að líta til laganna, þeirra reglna sem gilda og ákvæða sem um þetta mál gilda í lögum. Þar er skýrt tekið fram að menntmrh. þarf að samþykkja tillögu útvarpsstjóra um þetta efni. Hvort hann gerir það sama dag og fjárlagafrv. er afgreitt eða ekki skiptir engu máli fyrir hið formlega gildi þeirrar ákvörðunar.

Hér hefur einnig komið fram að allir hv. þm. sem tekið hafa til máls um þetta mál eru sammála ákvörðuninni. Þeir styðja ákvörðunina og eru kannski frekar á því að þurft hefði að hækka afnotagjöldin meira en um þessi 7%. Þannig er ekki ágreiningur um efnislega niðurstöðu málsins.

Herra forseti. Ég þakka fyrir tækifæri til að skýra þetta út. Það kemur fram í áliti Ríkisútvarpsins að þetta muni auka tekjur þess á næsta ári um 100--130 millj. kr., ef ég man rétt. Þar með liggur fyrir á hv. Alþingi hvaða áhrif þetta hefur þannig að ég tel að málið hafi komist vel til skila til þingheims. Ég þakka mönnum fyrir að lýsa yfir stuðningi við þessa ákvörðun mína.