Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 10:49:43 (3333)

2000-12-14 10:49:43# 126. lþ. 49.8 fundur 317. mál: #A málefni aldraðra# (Framkvæmdasjóður aldraðra) frv. 172/2000, Frsm. minni hluta ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[10:49]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Eins og fram kom í 2. umr. um þetta mál höfum við þingmenn Samfylkingarinnar lagt fram brtt. við frv. sem snúa að undanþáguákvæðinu, en undanþegnir frá gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra eru, eins og lögin eru í dag, börn innan 16 ára aldurs og þeir sem verða 70 ára og eldri í lok tekjuárs. Í umræðu um málið í nefndinni var vakin athygli á því að þessi nefskattur bitnar mjög illa á lágtekjufólki og öryrkjum því að nú er svo komið að öryrkjar sem eru eingöngu með greiðslur úr almannatryggingunum og búa einir eru komnir yfir skattleysismörk og þeir sem eru yfir skattleysismörkum greiða þetta gjald til sjóðsins sem er tæpar 4.600 kr. verði frv. að lögum.

Þar sem þetta er nefskattur þá er hann mun þyngri þeim sem eru með lágar tekjur eins og menn sjá. Við leggjum til að örorkulífeyrisþegar verði undanþegnir þessu gjaldi. Rökin fyrir því að við tiltökum ekki aðra láglaunahópa í undanþáguákvæðinu eru að öryrkjum er mjög erfitt að auka tekjur sínar vegna tekjutenginga í almannatryggingakerfinu. Þó að þeir bættu við sig launum eða reyndu að auka tekjur sínar skerðast þær því jafnharðan vegna almannatryggingatekjutenginganna í kerfinu. Okkur finnst því ástæða til að bæta þessum hópi inn í undanþáguákvæðið, þ.e. að þeir verði undanþegnir gjaldinu.

Í nefndinni kom einnig fram að þó svo að skattahækkanir geti ekki verið ástæða fyrir uppsögn kjarasamninga þá raskar þetta kjarasamningum. Þess vegna höfum við verulegar áhyggjur af því að verið er að auka þarna skattbyrði á ákveðna hópa í samfélaginu, líka í framhaldi af skattahækkunum vegna frv. sem nýverið hafa verið afgreidd, eins og frv. um tekjustofna sveitarfélaga, og hafa bitnað á fólki sem skattahækkun.

Ég vil sérstaklega leggja áherslu á öryrkjana og hefði gjarnan viljað fara fram á það við hæstv. ráðherra --- ég hef reyndar nefnt það við hæstv. ráðherra --- að hugleiða það að undanþiggja öryrkja, þ.e. örorkulífeyrisþega, frá þessu gjaldi. Öryrkjar sem eingöngu eru með greiðslur úr almannatryggingunum og geta ekki aukið tekjur sínar vegna tekjutenginganna eru þarna að fá til viðbótar 500 kr. skatt en þeir eru nú þegar að greiða nokkra tugi þúsunda króna í skatta á ári þó þeir séu eingöngu með bætur almannatrygginga vegna þess að skattleysismörkin hafa ekki fylgt launaþróuninni og hækkun bóta.

Herra forseti. Ég vil því ítreka þetta og ítreka önnur atriði sem koma fram í nál. okkar þingmanna Samfylkingarinnar í hv. heilbr.- og trn. Einnig vil ég benda á aðra brtt. þar sem við leggjum til að ekki meira en 25% af því fé sem í sjóðinn rennur fari til rekstrar. Það hefur komið fram að gerist það þá komi nægt fjármagn til þeirrar uppbyggingar sem þörf er á í hjúkrunarheimilum og vísað er til í greinargerð með frv. Ég vildi því ítreka þessi atriði og vonast til þess að meiri hlutinn taki tillit til öryrkja og erfiðra aðstæðna þeirra og aukinnar skattbyrði þeirra og hugleiði alvarlega að samþykkja þessa tillögu okkar um að undanþiggja þá þessu gjaldi.