Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 11:15:03 (3337)

2000-12-14 11:15:03# 126. lþ. 49.12 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv. 166/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[11:15]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst ein leiðrétting. Ég var með vangaveltur um tekjutengingu barnabótanna. Ég lýsti mig fylgjandi því að draga úr tekjutengingu barnabóta en var með vangaveltur um hvert framtíðarlandið væri í þeim efnum og ætla að leyfa mér að hafa það á vangaveltustigi.

Varðandi upplýsingar um framlag til barnabótanna þá liggja þær fyrir. Hv. þm. getur kynnt sér staðreyndir málsins í þingskjali sem var sett fram á þinginu í vor sem svar fjmrn. við spurningum mínum þar sem ég óskaði eftir því að þessi mál væru rækilega tíunduð, þ.e. framlag ríkissjóðs til barnabótakerfisins og hvernig það hefði þróast í krónum talið og að raungildi einnig, og það er í þetta skjal, þessar upplýsingar fjmrn., sem ég hef vitnað. Þar er staðreyndin sú að fyrir tíu árum voru barnabæturnar að raungildi 2 milljörðum hærri en þær eru nú og breytingarnar sem verið er að gera tillögu um að komi til framkvæmda í áföngum fram til 2003 munu ekki ná því marki. Þetta eru staðreyndir sem við getum ekki vefengt.

Hitt er svo annað mál að velta því fyrir sér hvort menn telji tekjur fólks almennt vera það góðar í landinu að ekki sé þörf á slíkum bótum. Eins og skilja má á máli hv. þm. þá telur hann að launatekjur fólks hafi aukist það ríflega að eðlilegt sé að skerða barnabæturnar, það er það sem gert hefur verið. Mér finnst hins vegar að ekki hafi verið rétt að draga úr framlagi ríkissjóðs til barnabótanna og reyndar stóð ég í þeirri meiningu að Framfl. hefði verið á því máli a.m.k. fyrir síðustu kosningar.