Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 11:17:14 (3338)

2000-12-14 11:17:14# 126. lþ. 49.12 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv. 166/2000, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[11:17]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bæta við það sem hv. þm. nefndi um kosningastefnuskrá Framsfl. um barnakort sem hann reyndar kallaði kosningaloforð sem er nú frekar ómerkilegur útúrsnúningur sem ýmsir ástunda hér til þess að gefa kosningastefnuskrá annað yfirbragð.

Ég vil segja að það er ekki svo fjarri því að við höfum náð því fram sem við settum okkur í þeirri stefnuskrá. Stefnan var fólgin í því að taka upp hluta af barnabótunum á þann veg að vera ótekjutengdur og sá hluti skyldi vera 30 þús. kr. á hvert barn. Athuganir okkar leiddu í ljós að ætla mætti, ef þetta næðist fram að fullu, að það gæti kostað um 2,5 milljarða kr. Það sem við höfum náð fram núna eru breytingar sem munu kosta um 2 milljarða og ef maður bætir við öðrum breytingum sem eru að hluta til óskyldar en líka að hluta til skyldar, þ.e. að fullu millifæranlegan persónuafslátt sem kostar um hálfan milljarð kr. þá má segja að heimilin eða fjölskyldurnar í landinu hafi fengið bætur eða tekjuauka sem nemur svipaðri fjárhæð og ætlað var með barnakortunum.

Munurinn á barnakortunum eins og við settum þau fram í okkar kosningastefnuskrá og því sem er núna í frv. er að barnakortið nær aðeins til sjö ára aldurs en ekki upp að 16 ára eins og áformað var. Þar á móti kemur að dregið er verulega úr tekjutengingu og eignatenging er algjörlega afnumin þannig að verulegar fjárhæðir eru reiddar fram fyrst og fremst til að draga úr almennri tekjutengingu sem var prósentubundin. Ég vil því halda því fram, herra forseti, og benda hv. þm. á að það sem við settum okkur almennt í okkar kosningastefnuskrá um barnakort virðist mér hafa náðst að verulegu leyti fram og miklu meira en hv. þm. vill vera láta.