Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 11:21:36 (3340)

2000-12-14 11:21:36# 126. lþ. 49.12 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv. 166/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[11:21]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Komið er að lokum þessarar umræðu um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem felur í sér að auka barnabætur. Sjálfsagt er búið að segja allt sem hægt er að segja í þessu máli og litlu við það að bæta án þess að um endurtekningar verði að ræða.

Herra forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir og hefur verið sagt hér --- af því að ég sé að formaður þingflokks framsóknarmanna er aðeins á iði þá vil ég biðja hann að hlýða á mitt mál sem verður örstutt. (Gripið fram í.) Það hefur komið fram að ótekjutengdi hluti barnabótanna nær aðeins til barna að sjö ára aldri. Við höfum haldið því fram, eins og kom reyndar fram í þessum umræðum, að jafnvel eftir að þessi breyting er komin til framkvæmda eftir þrjú ár þá er minna látið til barnabóta en var á árinu 1995 og ekki nóg með það heldur hafi ótekjutengdi hlutinn verið meiri á árinu 1995 en verður þegar tillögur ríkisstjórnarinnar eru komnar til framkvæmda, þ.e. að meðaltali var ótekjutengdi hlutinn áður 40 þús. kr., misjafnt eftir aldri barna og hjúskaparstöðu foreldra. Áður fóru, að okkar mati, 2,8 milljarðar í ótekjutengda hlutann en með tillögum ríkisstjórnarinnar fer aðeins einn milljarður í ótekjutengda hlutann.

Nú hafa menn verið að skiptast hér á skoðunum um kosningaloforð framsóknarmanna í þessu efni. Í mínum huga er alveg klárt hvert það kosningaloforð var. Ég man það næstum orðrétt, en það var að öll börn mundu eiga rétt á, samkvæmt því kosningaloforði, barnabótum í formi barnakorts sem átti að nema 30 þús. kr. fyrir hvert barn. En þegar þetta frv. verður orðið að lögum munu öll börn að sjö ára aldri fá sem nemur 33 þús. og einhverjum krónum hvert barn. Þá standa eftir, ef við skoðum heildarfjölda barna þó það sé ekki nema til 16 ára aldurs, rúmlega 30 þúsund börn sem fá ekki þennan ótekjutengda hluta.

Ég tel og hef sagt að þarna sé Framsfl. bara að efna sitt kosningaloforð að hálfu. Þó við tækjum aðeins börn til 16 ára aldurs en miðuðum ekki við 18 ára aldur sem er þó rétt að gera eftir að við breyttum lögunum um sjálfræðisaldur, þá er þarna verulega stór hópur sem fær ekki neitt samkvæmt því sem Framsfl. hafði áður lofað.

Herra forseti. Nú kem ég að þeirri spurningu sem var erindi mitt í ræðustól. Mér finnst hafa gætt mismunandi sjónarmiða, eins og ég hef metið það, hjá framsóknarmönnum, t.d. með frammíköllum úti í sal hjá einstaka mönnum þegar þessi umræða hefur staðið yfir, hvort að með þeim tillögum sem við erum að ganga frá hér sé endanlega komið fram það sem á að koma fram á þessu kjörtímabili að því er varðar barnabætur.

Þetta frv. tekur gildi í áföngum og á að fullu að vera komið til framkvæmda 2003, þ.e. ári fyrir kosningar. Mér hefur fundist á sumum framsóknarmönnum að það væri von á meiru á þessu kjörtímabili en við erum hér að samþykkja. En það gengur þvert á það sem formaður Framsfl. sagði í viðtali þegar þessi breyting á barnabótakerfinu kom fyrst fram af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hann var sérstaklega spurður um það og mér fannst hann taka af skarið um að það væri alveg ljóst að ekki kæmi meira á kjörtímabilinu, með þessu gengi Framsfl. eins langt og hægt væri í að efna þetta loforð.

Ég vil spyrja formann þingflokks framsóknarmanna hvort hann sé sammála þessu sjónarmiði formanns Framsfl., hvort að með þessu frv. sem við erum hér að samþykkja, sem tekur gildi á næstu þremur árum, sé að fullu stigið það skref sem Framsfl. í samstarfi með Sjálfstfl. mun stíga á þessu kjörtímabili, vegna þess að fólkið á rétt á að vita hvort við séum hér að stíga endanlega það skref sem verður stigið að því er varðar aukningu í barnabótakerfinu á kjörtímabilinu eða hvort von sé á einhverju meira. Ég verð vör við það að framsóknarþingmenn eru ekki alveg sammála formanni Framsfl. í því efni.

Þetta er því mín spurning, herra forseti: Má líta svo á að með þessu frv. sem hér er verið að ganga frá og gera að lögum sé kominn fram allur áfanginn sem Framsfl. mun stíga að því er varðar auknar barnabætur á þessu kjörtímabili?