Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 11:27:03 (3341)

2000-12-14 11:27:03# 126. lþ. 49.12 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv. 166/2000, KHG
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[11:27]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Varðandi spurningu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þá er þetta mál eins og frv. ber með sér afrakstur af samkomulagi milli stjórnarflokkanna um að útfæra það sem fram er tekið í stjórnarsáttmálanum um það efni. Ég ætla ekkert að útiloka að gerðar verði breytingar á þessu síðar á kjörtímabilinu. En það yrði ný ákvörðun. Það er eins og það er að í stjórnarsamstarfi leitast menn við að ná því fram sem þeir stefna að og síðan er hver ákvörðun tekin fyrir sig. Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér í þessum efnum. En þetta mál liggur ljóst fyrir. Það er afgreitt til þriggja ára.

Ég vil árétta það vegna ummæla hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og reyndar Ögmundar Jónassonar að þau eru að reyna að gera þetta dálítið tortryggilegt og kannski gera minna úr þessum áfanga en efni standa til. Mér finnst það vera fullneikvæður tónn hjá hv. þingmönnum sem ég veit að bera þennan málaflokk fyrir brjósti, að leitast við að gera minna úr því sem gert er en efni standa til. Það er algerlega út í hött að bera saman barnabætur miðað við launastig árið 1990 og árið 2000. Það er fullkomlega ómarktækur samanburður þannig að þeir sem eru að draga þær upplýsingar fram verða þá að benda á hvað kaupmáttur hefur aukist mikið og ráðstöfunartekjur fjölskyldna hafa aukist mikið á þessum áratug. Þegar menn hafa bótakerfi, hvort sem það eru barnabætur eða eitthvað annað sem er tengt við tekjur þeirra sem bæturnar fá, þá leiðir af sjálfu sér þegar efnahagur batnar og afkoma þeirra sem bótanna eiga að njóta batnar vegna þess að þeir afla sjálfir meira fjár með sinni vinnu, að það dregur úr bótagreiðslum frá ríkissjóði. Annað væri óeðlilegt nema menn séu þeirrar skoðunar að bæturnar eigi að greiðast óháð tekjum þeirra sem þær fá. Ég er ekki þeirrar skoðunar og það kæmi mér á óvart ef hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir væri þeirrar skoðunar að bætur úr ríkissjóði til þjóðfélagshópa væru að öllu leyti óháðar tekjum þeirra sem bótanna eiga að njóta. Þeir sem benda á þennan þátt málsins eru að mínu viti ekki að draga fram sanngjarnan samanburð sem eðlilegur er. Ég tel að þessi málflutningur þjóni einungis þeim tilgangi að reyna að varpa rýrð á þennan áfanga sem stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um.

Ég vil svo árétta það líka, herra forseti, að í þeim breytingum sem núna eru gerðar kemur ákveðinn hópur betur út en aðrir hópar innan þess hóps sem fær bæturnar yfir höfuð. Það eru einstæðir foreldrar. Mér finnst full ástæða til þess að halda því á lofti því að ég verð ekki var við að hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafi vakið athygli á þessum þætti málsins þó að þeir telji sig alltaf vera sjálfskipaða fulltrúa þeirra sem þurfi eða eigi að njóta bóta úr ríkissjóði. Mér finnst að hv. þm. Ögmundur Jónasson og Jóhanna Sigurðardóttir verði að fara að venja sig af málflutningi sem felst í því að gera stöðugt lítið úr því sem aðrir eru að gera og helst að reyna að draga fram upplýsingar sem eru til þess fallnar að fá fólk til að meta hlutina á annan hátt en sanngjarnt og eðlilegt er. Ég veit ekki alveg hvað vakir fyrir hv. þingmönnum annað en að þeim er það ljóst að þetta mál er tiltölulega gott. Framsfl. er að ná verulegu fram af því sem hann einsetti sér í síðustu kosningabaráttu. Það er kannski ástæðan fyrir því að þingmennirnir telja það ekki eftir sér að fara í ræðustól til þess að draga úr gildi málsins. En ég held að fólkið sem fær bæturnar muni átta sig á þessu þannig að þegar upp er staðið viti allir hvernig í málinu liggur.